138. löggjafarþing — 38. fundur,  4. des. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[14:58]
Horfa

Unnur Brá Konráðsdóttir (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég varð hálfhvumsa yfir þessum síðustu yfirlýsingum hv. þingmanns. Er það sem sagt þannig að fjárlaganefnd fékk þýdda útgáfu fjármálaráðuneytisins á þessu bréfi sem ekki er til frá Bretum og Hollendingum? Bara svo að því sé alveg skýrt komið á framfæri.

Hv. þingmaður hefur verið ódeigur í því að benda á ákvæði 2.1.3 í samningunum, sérstaklega það hversu mikið breytist þegar við komumst undir breska lögsögu varðandi þessa samninga. En mig langaði aðeins að taka annan vinkil á grein 2.1.3 í samningunum. Þar skrifa ríkisstjórnin og framkvæmdarvaldið undir samning sem leggur í rauninni þá skyldu á ríkisstjórnina að leggja fram frumvarp á Alþingi sem verður ekki breytt, þar á að samþykkja ríkisábyrgð án skilyrða og fyrirvara. Í samningunum er sem sagt girt fyrir það og með undirritun fulltrúa ríkisstjórnarinnar að ekki sé heimilt á Alþingi að setja neina fyrirvara við ríkisábyrgðina. Þar sem títt hefur komið fram í þingsölum að hv. þm. Vigdís Hauksdóttir er lögfræðingur, skemmtilegt fyrir okkur lögfræðingana að fá alltaf svona spurningar, spyr ég: Er það að mati hv. þingmanns innan þeirra valdheimilda sem ríkisstjórnin hefur að undirrita samninga þar sem áskilnaður er um að Alþingi komi til með að afgreiða frumvarp um ríkisábyrgð án skilyrða og fyrirvara? Ég tel mjög mikilvægt að við ræðum þetta vegna þess að þetta tengist þeirri umræðu sem farið hefur fram í þessum sal um fullveldið og þrígreiningu þessa ríkisvalds og hvort þarna sé vegið að því eða ekki.