138. löggjafarþing — 38. fundur,  4. des. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[15:02]
Horfa

Unnur Brá Konráðsdóttir (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þm. Vigdísi Hauksdóttur fyrir svarið. Ég skil svar hv. þingmanns þannig að þegar af þeirri ástæðu að framkvæmdarvaldið er að binda hendur Alþingis, getum við ekki fallist á að þetta frumvarpi fari í gegn. Ég er algerlega á þeirri skoðun að þarna sé gengið allt of langt og sérstaklega sé verið að reyna að fyrirbyggja það að þingið taki málið í sínar hendur, að þingið fari í svipaða vinnu og unnin var í sumar þegar menn settust niður og reyndu í sameiningu að leita lausna. Ég tel einfaldlega, frú forseti, ekki hægt fyrir Alþingi að samþykkja þetta frumvarp óbreytt því að þar með værum við að viðurkenna og gefa ákveðið fordæmi inn í framtíðina um að það sé í lagi að framkvæmdarvaldið taki sér vald sem það hefur ekki.