138. löggjafarþing — 38. fundur,  4. des. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[15:23]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég hef verið þeirrar skoðunar í þessu máli að við eigum ekki að borga þessa Icesave-reikninga. Ég held hins vegar að því miður sé búið að koma málum þannig fyrir að við komumst varla hjá því nema það verði leyst fyrir dómstólum með þar til bærum hætti.

Ef staðan er hins vegar þannig að við þurfum að gera þetta má vitanlega að gera það með þeim hætti að við getum staðið undir því án þess að skerða lífskjör þjóðarinnar um ófyrirsjáanlega framtíð. Það er ein af stóru hættunum í þessu samhengi að samningurinn er óendanlegur, afborganirnar geta tekið endalausan tíma. Og vitanlega notum við ekki sömu skatttekjur aftur og aftur, það er ekki þannig.

Ef við værum að horfa á sveitarfélag í dag og það væri ljóst að þriðjungi eða helmingnum af skatttekjum bæjarbúanna væri þegar ráðstafað í ákveðna þætti — sem við vitum að er í raun hjá sveitarfélögunum varðandi ákveðna liði, t.d. fræðslumál og annað — þá þarf að skera einhvers staðar niður á móti, það þarf að draga saman á móti. Ef áætlanir ríkisvaldsins gera ráð fyrir tekjuskatti allra þeirra sem greiða hann, um 170–180 þúsund einstaklinga, og við erum búin að taka 80 þúsund úr þegar og ráðstafa í Icesave þá notum við þá peninga ekki í annað. Ég óttast að þetta verði til þess að við þurfum að draga enn frekar saman í velferðarkerfinu en blasir við nú þegar, þetta mun minnka framkvæmdagetu ríkisvaldsins, þetta mun koma niður á fjárfestingum, þetta getur haft afdrifaríkar afleiðingar á svo mörgum stöðum. Það er mikill ábyrgðarhluti að taka það sem sjálfgefið í raun að við getum ráðstafað þessum skatttekjum í aðra hluti en þegar er búið að ákveða að þær fari í.