138. löggjafarþing — 38. fundur,  4. des. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[15:25]
Horfa

Unnur Brá Konráðsdóttir (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þm. Gunnari Braga Sveinssyni fyrir skýra og góða ræðu þar sem hann rakti fyrir okkur þær ástæður sem liggja að baki því að hann mun hafna því að samþykkja þetta frumvarp, eftir því sem ég skil hann, og það er til fyrirmyndar að setja málið upp á jafnskýran hátt og hér var gert.

Það eru nokkur atriði sem ég tel rétt að knýja aðeins á um að fá útskýringar á, aðallega varðandi stjórnarskrána vegna þess að ýmsir fræðimenn hafa velt upp þeirri spurningu, þar á meðal Sigurður Líndal lagaprófessor, hvort þetta frumvarp sé í rauninni andstætt stjórnarskránni. Við öll sem hér sitjum höfum svarið eið að stjórnarskránni og okkur ber því að framfylgja því að gæta hennar í hvívetna í störfum okkar.

Í ræðu sem ég hélt einhverja nóttina, ég man ekki alveg hvaða dag það var, þar sem ég reifaði áhyggjur mínar af stjórnarskrárþættinum kom hæstv. fjármálaráðherra upp í andsvar við mig og lýsti því að yfir þetta hefði allt verið farið af hálfu ríkisstjórnarinnar áður en þeir undirrituðu samninga. Eftir þetta andsvar reyndi ég að fletta í gegnum frumvarpið sem hérna liggur fyrir og eins í gegnum álit frá meiri hluta fjárlaganefndar með þessu máli. Ég fann þess hvergi stað að það væri vitnað í að farið hefði verið á þennan hátt í gegnum þetta mál. Mig langaði bara að inna hv. þm. Gunnar Braga Sveinsson eftir því hvort hann hafi rekist á þetta einhvers staðar í þessu máli því ég veit að hann er víðlesinn í gögnum málsins og hefur sökkt sér ofan í þetta. En að sögn hæstv. fjármálaráðherra hafði verið fengið álit frá helstu lögspekingum Íslands áður en ríkisstjórnin undirritaði þetta og mig langar að vita hvort það liggi einhvers staðar frammi og hvort það hafi einhvers staðar komið fram og ef svo er hvar það er að finna.