138. löggjafarþing — 38. fundur,  4. des. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[15:29]
Horfa

Unnur Brá Konráðsdóttir (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Þetta var athyglisvert. Ég hef einmitt hvergi rekist á þessi gögn en hins vegar hef ég orðið vör við mikla gagnrýni af hálfu stjórnarliða á okkur sem hér stöndum og ræðum um stjórnarskrána, fyrir að vera að eyða tíma Alþingis í að ræða stjórnarskrána þar sem það liggi í augum uppi að ekki sé verið að brjóta stjórnarskrána og það er vísað í einhver gögn og athuganir sem fram hafi farið sem hvergi er framvísað. Þess vegna finnst mér mjög alvarlegt, frú forseti, ef hv. stjórnarþingmenn sem nú sitja í hliðarsal eru að gantast um hvernig við tölum í ræðustól. Hér erum við að ræða háalvarlegt mál, við erum að ræða sjálfa stjórnarskrána sem bæði ég sem nýr þingmaður og eins hv. þm. Sigmundur Ernir Rúnarsson, sem gert hefur grín að því hvernig ég haga málflutningi mínum í pontu, höfum svarið eið að. Ég tel að við eigum að sýna Alþingi þá virðingu og stjórnarskránni þá virðingu að tala um þessi mál af festu og hafa öll gögn uppi á borðum.

Hvers vegna eru þessi gögn sem hæstv. fjármálaráðherra vísaði í eina nóttina ekki sýnd? Hvenær voru þau tekin saman o.s.frv.? Ég tel bara rétt að við komumst að þessu. Í þessu máli er enn og aftur verið að ræða um einhver gögn og einhvern málatilbúnað sem hvergi sér stað. Enn og aftur, frú forseti, rekum við okkur á það að talað er út í eitt um það að hér skuli allt vera haft uppi á borðum, hér skuli viðhafa gegnsæ og lýðræðisleg vinnubrögð en í reyndinni stenst ekkert af þessu, þetta eru einfaldlega yfirlýsingar í orði en hvergi á borði.

Ég vil spyrja hv. þm. Gunnar Braga Sveinsson hvort hann sé ekki sammála mér um að það þurfi að fara fram viðamikil umfjöllun um stjórnarskrárþáttinn í nefndinni og þá væntanlega að reyna að særa fram frá hæstv. fjármálaráðherra og ráðuneyti hans þessa umfjöllun sem virðist hafa farið fram áður en ráðherrann eða starfsmenn hans undirrituðu samningana við Breta og Hollendinga, hvort það sé ekki rétt að við beitum okkur fyrir því.