138. löggjafarþing — 38. fundur,  4. des. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[16:02]
Horfa

Árni Johnsen (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Nei, Árni Johnsen gefst ekki upp, aldrei, aldrei. Ef hv. þm. Björn Valur Gíslason er svo syfjaður sem af er látið þá ætti hann bara að fara í lúkar og leggja sig. (BVG: Syfjaður?) Það hefur valdið vonbrigðum að hv. þm. Björn Valur Gíslason tekur ekki þátt í málefnalegri umræðu um þetta mál sem er þó svolítið í hans stíl (BVG: Víst.) því hann er að upplagi baráttumaður en hann þegir þunnu hljóði (BVG: Nei.) og er nú eins og kötturinn sem malar undir rýju Samfylkingarinnar útþaninn af rjóma og loforðum um gull og græna skóga í Evrópu og bíður bara eftir að fá spenann eina ferðina enn. Það er sorglegt, við höfum sjómann að norðan, hv. þm. Björn Val Gíslason, og það er skelfilegt þegar maður tapar mönnum svona fyrir borð í miklu baráttu- og hagsmunamáli og þeir þora ekki. Hann lætur knésetja sig og það alversta er að hann er kominn undir rýju Samfylkingarinnar, það er derhúfa sem hentar ekki vel skipstjóranum að norðan. En hann lætur sig hafa það og vonandi gengur það yfir fyrr en seinna.

Þetta er barátta, barátta og aftur barátta. Ég hef sagt það fyrr að maður hefur treyst á það að Vinstri grænir, jaxlarnir þar, hefðu hald á hlutunum, stæðu við skoðanir sínar, stæðu við baráttu sína og hugsjónir en þetta er allt að fölna, þetta er allt í haustlitum og það er ekki gott. Það er vont fyrir íslenskt þjóðfélag.