138. löggjafarþing — 38. fundur,  4. des. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[16:06]
Horfa

Árni Johnsen (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég hef margoft í ræðum mínum lagt áherslu á það að hættan sé sú að við séum að tapa sjálfstæði okkar, að við séum til að mynda að verða efnahagsleg nýlenda Breta og Hollendinga og að mínu mati er alveg ljóst að Evrópubandalagið ásælist samskipti við Ísland ekki af heilum hug heldur af græðgi og yfirgangi, af því að það vill hafa áhrif og ná völdum yfir auðlindum okkar til lands og sjávar.

Það var rætt við umræðuna sem hv. þm. Höskuldur Þórhallsson vék að. Ég skora á eftirtalda hv. þingmenn að taka þátt í þessari umræðu, sækja og verja eftir atvikum og taka þátt í þessari málefnalegu umræðu sem á sér stað, hv. þingmenn Árna Pál Árnason, Ástu R. Jóhannesdóttur, Björgvin G. Sigurðsson, Guðbjart Hannesson, Helga Hjörvar, Jóhönnu Sigurðardóttur, Jónínu Rós Guðmundsdóttur, Katrínu Júlíusdóttur, Kristján L. Möller, Magnús Orra Schram, Oddnýju G. Harðardóttur, Ólínu Þorvarðardóttur, Róbert Marshall, Sigmund Erni Rúnarsson, Sigríði Ingibjörgu Ingadóttur, Skúla Helgason, Steinunni Valdísi Óskarsdóttur, Valgerði Bjarnadóttur, Þórunni Sveinbjörnsdóttur, Össur Skarphéðinsson, Atla Gíslason, Álfheiði Ingadóttur, Árna Þór Sigurðsson, Ásmund Einar Daðason, Björn Val Gíslason, Guðfríði Lilju Grétarsdóttur, Jón Bjarnason, Katrínu Jakobsdóttur, Lilju Rafneyju Magnúsdóttur, Lilju Mósesdóttur, Steingrím J. Sigfússon, Svandísi Svavarsdóttur, Þuríði Backman og Ögmund Jónasson. Örfáir af þessum hv. þingmönnum hafa tekið þátt í þessari umræðu, 6 af 34. Það er ekki boðlegt að þingmenn með mikla reynslu að baki, þótt þeir hafi kannski ekki mikla þingreynslu, taki ekki þátt í umræðu (Forseti hringir.) sem varðar sjálfstæði Íslands.