138. löggjafarþing — 38. fundur,  4. des. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[16:32]
Horfa

Frsm. 2. minni hluta fjárln. (Höskuldur Þórhallsson) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni svarið. Stórt var spurt, en það sýnir okkur kannski að við þurfum að ræða þetta mál í hörgul. Það er mjög gott að þingmenn velti hér á milli sín mikilvægum spurningum eins og þeirri: Hvaða álögur erum við að setja á komandi kynslóðir? Það eru alltaf að koma upp nýir og nýir fletir.

Svo er eitt sem mér finnst líka mikilvægt að benda á. Við framsóknarmenn lögðum fram frumvarp þess efnis að málið færi í þjóðaratkvæðagreiðslu. Við erum þeirrar skoðunar að ekkert mál sé of flókið fyrir íslensku þjóðina. Hæstv. ráðherra var eitt sinn sömu skoðunar og framsóknarmenn, að engin mál væru of flókin og nefndi það að einungis hjáróma raddir héldu slíku fram. Nú heldur hann því fram að Icesave-málið, hann hélt því fram í sumar, sé of flókið fyrir almenning. Ég hef skynjað það hér að undanförnu að þjóðin er farin að átta sig betur og betur á því hversu slæmir Icesave-samningarnir eru fyrir íslensku þjóðina. Um leið og fólk áttar sig á því að skatttekjur þess fara eingöngu í vexti af Icesave-samningunum, spyr fólk sig: Til hvers erum við að þessu?

Mig langar að beina þeirri spurningu að hv. þm. Tryggva Þór Herbertssyni, hvort hann telji ekki meira virði að geta notað þá peninga sem við framleiðum í að dæla þeim inn í íslenska efnahagskerfið í staðinn fyrir að þeir peningar flæði allir til útlanda.