138. löggjafarþing — 38. fundur,  4. des. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[16:34]
Horfa

Tryggvi Þór Herbertsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er stutt og laggott, jú, það væri mun betra ef við gætum notað þessa peninga innan lands til að reisa okkur við aftur og halda áfram að búa hér til blómlegt þjóðfélag.

Öll stjórnvöld núna undanfarið hafa lýst því yfir að þau vilji standa ótvírætt við þær skuldbindingar sem okkur ber að standa undir. En í þessu máli er það einfaldlega þannig að það er ekki ljóst hverjar þessar skuldbindingar eru og stjórnvöld hafa ekki viljað láta reyna á hverjar skuldbindingarnar eru og það er það sem hefur vakið reiði í þjóðfélaginu og reiði og raunverulega vantrú okkar stjórnarandstöðuþingmanna.

Ég hefði haldið að það væri mjög eðlileg og sanngjörn krafa að spyrja þjóðina að því hvort hún vilji láta reyna á fyrir dómstólum hvort okkur beri í raun og veru að greiða þessar skuldir, eða ekki skuldir, þetta er ekki skuld, þessa upphæð, og það verði kynnt hvaða afleiðingar það geti haft ef við gerum það og hvaða afleiðingar það hafi ef við höfnum því. Ég held að það sé sanngjarnt, eðlilegt og einfalt og ég treysti fólki fullkomlega til að taka ákvörðun um það út frá eigin hyggjuviti, þrátt fyrir að hæstv. fjármálaráðherra hafi snúist mjög í þeirri sýn sinni að sem flest mál ættu að fara í þjóðaratkvæðagreiðslu.