138. löggjafarþing — 38. fundur,  4. des. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[16:47]
Horfa

Unnur Brá Konráðsdóttir (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þm. Höskuldi Þórhallssyni fyrir ágætisræðu sem var skýr í megindráttum og hann lýsti þar m.a. áhyggjum sínum af stjórnarskránni. Nú situr hv. þingmaður í fjárlaganefnd sem hefur þetta mál til umfjöllunar. Ég hef velt upp þessari spurningu varðandi stjórnarskrána í mínum ræðum, ætli það hafi m.a. ekki verið á miðvikudagsmorgun sem ég hélt ræðu kl. 5.21 um morguninn og fékk þá hæstv. fjármálaráðherra í andsvar. Ég hafði verið að lýsa áhyggjum mínum af stjórnarskránni en þá kom hann með þær upplýsingar að þetta hefði allt verið rætt í ríkisstjórninni og að álit hefði verið fengið á því hvort samningarnir stæðust stjórnarskrá, eftir því sem mér skildist, áður en þeir hefðu verið undirritaðir og til þess hefðu verið fengnir hæfir menn og miklir sérfræðingar.

Nú langar mig til að spyrja hv. þingmann af því ég hef verið að leita að þessu í gögnum málsins þar sem það er augljóst að mikið hefur verið rætt um þennan þátt málsins hér í þessum ræðustól og við í stjórnarandstöðunni verið sökuð um að þekkja ekki málið, vita ekki um hvað við erum að tala og tala um eitthvað sem sé löngu búið að fara yfir. Kannast hv. þingmaður í fyrsta lagi við þessa umræðu? Kannast hann við að þessi gögn, eða einhver gögn um að slík vinna hafi farið fram áður en samningarnir voru undirritaðir, hafi verið lögð fram? Ef það hefur einhvers staðar verið gert, gæti hv. þingmaður leiðbeint mér um hvar ég finn þessi gögn?

Ég hef farið yfir málið ágætlega eftir mínum viðmiðunum en ég hef hvergi fundið þetta. Við í stjórnarandstöðunni höfum hins vegar verið sökuð um það af hálfu stjórnarliða að vera með málflutning eingöngu til þess að standa hér og tala en ekki út af málefnalegum rökum. Mér þykir það súrt í brotið að fá slíkar ásakanir. Ég hef hins vegar orðið vör við að ekki eru öll gögn uppi á borðum. Það er talað mikið um lýðræðisleg vinnubrögð og gagnsæi í vinnubrögðum af hálfu stjórnarliða en það er meira í orði en (Forseti hringir.) á borði.