138. löggjafarþing — 38. fundur,  4. des. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[16:50]
Horfa

Frsm. 2. minni hluta fjárln. (Höskuldur Þórhallsson) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég spyr mig þessarar sömu spurningar: Hvar liggja fyrir gögn um að ríkisstjórnin hafi leitað sér skriflegs álits á áhrifum samninganna á stjórnarskrána? Það er með þvílíkum eindæmum að fjármálaráðherra skuli leyfa sér trekk í trekk að koma hingað upp og vísa í einhver óskilgreind gögn. Þeir lögfræðingar sem komu fyrir nefndina og fullyrt er af hálfu meiri hlutans að hafi haft tiltekna skoðun, ég er reyndar ósammála því að það hafi verið gert, neita að gefa skriflegt álit sitt á málinu. Lái þeim hver sem vill, þeir hafa væntanlega sínar ástæður fyrir því. Þegar lögfræðingur eins og Sigurður Líndal lagaprófessor, okkar færasti stjórnskipunarsérfræðingur, sér ástæðu til þess að skrifa greinar og koma fram í fjölmiðlum til þess að benda á þessa hættu eigum við að sjálfsögðu að taka það mjög alvarlega. Við eigum að setjast niður í rólegheitum og fara yfir málið. Það finnst mér hafa vantað hjá ríkisstjórninni. Mér finnst allt málið hafa einkennst af óðagoti, einhverri undirliggjandi pressu, hótunum og hræðsluáróðri þegar skylda okkar þingmanna er fyrst og fremst að vera rólegir og yfirvegaðir og fara gaumgæfilega yfir alla þætti þessa mikilvæga máls.

Ég bar hér upp á annan tug spurninga sem komandi kynslóðir munu spyrja okkur þegar fram í sækir. Ég ætla mér að hafa svör við öllum þessum spurningum á reiðum höndum. Ég ætla ekki að standa frammi fyrir komandi (Forseti hringir.) kynslóðum eins og ég veit ekki hvað (Forseti hringir.) og segja við þær að ég hafi ekki talað. (Forseti hringir.) Ég ætla mér að ræða þetta mál.