138. löggjafarþing — 38. fundur,  4. des. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[17:06]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir svörin. Nú vefengjum við lagalega skyldu okkar til þess að greiða en í fyrirvörunum var það þannig að ef úrskurðað yrði í málinu íslenskum stjórnvöldum í hag, þ.e. út af Evróputilskipuninni, göllum í henni, væri hægt að takmarka ríkisábyrgðina við þá niðurstöðu, það var inni í fyrirvörunum. Nú er hins vegar búið að taka það og færa það til baka inn í samningana. Mig langar að spyrja hv. þingmann, sem er löglærður, hvaða lagalegt gildi þetta hefur. Margir lögfræðingar hafa komið fram og skrifað um að það sé kannski ekkert nema teboð sem felst í þessu, að Bretum og Hollendingum sé skylt að setjast niður með okkur, ræða við okkur, en engin skuldbinding sé þar á bak við. Hver er skoðun hv. þingmanns á lagalegu gildi þessara fyrirvara og þessari breytingu eins og hún er núna?