138. löggjafarþing — 38. fundur,  4. des. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[17:21]
Horfa

Ragnheiður E. Árnadóttir (S) (andsvar):

Frú forseti. Mér þykir mjög leiðinlegt að hæstv. utanríkisráðherra hafi ekki náð að fanga athygli frú forseta áður en tíma til andsvara lauk vegna þess að ég hefði gjarnan viljað fá hann upp í andsvar til þess að ræða þessi mál, ekki síst þann nýja fréttapóst sem Samfylkingin var að senda út.

Það sem hv. þm. Sigmundur Davíð Gunnlaugsson vakti athygli á er með ólíkindum og sýnir enn á ný að þetta mál er algjörlega í uppnámi. Við getum ekki látið þetta fólk í stjórnarflokkunum komast upp með að stjórna fjölmiðlaumræðunni þannig að eina fréttin af þessu máli sem birtist í fjölmiðlum snúist um að hér sé stundað málþóf. Mér er einfaldlega nóg boðið og ég krefst þess af ríkisfjölmiðlunum alla vega, ég get ekki gert kröfu á annað, að þeir fari að sinna sinni upplýsingaskyldu til þess að íslenska þjóðin geti orðið meðvituð og meðvitaðri, vegna þess að ég treysti íslenskri þjóð. Hún er að kynna sér málið og hún horfir á Alþingi, við fáum af því fréttir og sjáum það á undirskriftasöfnun Indefence.

Varðandi það sem hv. þingmaður sagði um upplýsingarnar frá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum þá veit ég nákvæmlega hvað hæstv. fjármálaráðherra mun segja. Hann mun segja að þetta séu óstaðfestar lausafregnir eins og hann gerði í dag þegar hv. þm. Sigmundur Davíð Gunnlaugsson bar undir hann tölur um skuldaþol íslenska ríkisins. Mér finnst komið nóg þegar íslenskir ráðamenn eru orðnir þreyttir á þessu máli þannig að annar stjórnarflokkurinn í það minnsta er farinn að grípa til lyga. Þetta er stórt orð en ég verð að nota það, annar flokkurinn er farinn að grípa til lyga til þess væntanlega að fá flokksmenn til (Forseti hringir.) að ganga í takt eins og (Forseti hringir.) samfylkingarfélög úti um allt land eru farin að álykta um.