138. löggjafarþing — 38. fundur,  4. des. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[17:25]
Horfa

Ragnheiður E. Árnadóttir (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég held að þetta sé einmitt málið, þeir vita að þeir verði ekki bara staðnir að ósannindum — hérna kemur hv. þm. Guðbjartur Hannesson sem hefði kannski haft gott af því að hlusta á reiðilestur minn vegna þess að ég hefði haldið að hann hefði kannski eitthvað við mig að segja um þessi mál.

Ég vil vekja athygli á einu sem hv. þingmaður kom inn á og það er einmitt þetta sem fram kemur í Samfylkingarpóstinum um neyðarlögin. Mér finnst mjög alvarlegt þegar flokkur í ríkisstjórn á Íslandi — og þar að auki flokkur sem var við völd þegar neyðarlögin voru sett en þetta eru neyðarlög sem voru sett í ástandi sem var algjörlega fordæmislaust — vogar sér að nota þau í hræðsluáróðri við sitt flokksfólk. Hér segir, með leyfi forseta:

„… og hins vegar vegna þess að mjög miklar líkur eru á að neyðarlögin yrðu felld fyrir dómi“.

Þau spá því og ýta undir tortryggni í garð þess. Veit þetta fólk ekki að fullt af fólki úti í hinum stóra heimi vill að þessum neyðarlögum verði hnekkt? Eigum við Íslendingar ekki a.m.k., frú forseti, að sameinast um að berjast fyrir því að þau haldi? Þau voru sett með hagsmuni okkar að leiðarljósi, til að berjast fyrir okkar hagsmunum. Nei, þessu fólki er alveg nákvæmlega sama um það. Það vill bara koma þessu máli með einhverjum hætti frá og er tilbúið til að gera hvað sem er. Nú er farið að beita neyðarlögunum fyrir sig. Það er ekki lengur frostaveturinn mikli, nú er það hvorki meira né minna en ísöld sem er undir. Þessi málflutningur er þessu fólki fullkomlega til skammar (Forseti hringir.) og ég hef satt að segja fengið nóg af því. Ég vil fá (Forseti hringir.) að ljúka máli mínu einhvern tímann síðar, frú forseti.