138. löggjafarþing — 38. fundur,  4. des. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[17:41]
Horfa

Birgir Ármannsson (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Jú, ég tel alveg fullvíst að hægt hefði verið að standa betur að málum í þeim efnum. Ég held líka að það sé hárrétt athugasemd hjá hv. þm. Ögmundi Jónassyni, sem birtist í þessum tilvitnuðu orðum, að almenningur í nágrannaríkjunum — vegna þess að þetta eru auðvitað vinaþjóðir okkar og þó að ríkisstjórnir kunni að vera okkur andsnúnar í einstökum málum tel ég að Ísland njóti velvildar í þessum löndum eins og hv. þm. Ögmundur Jónasson vísar til — hefði ekki sætt sig við það að ríkisstjórnirnar beittu einhverjum bolabrögðum ef það er raunin.

Nú er þetta auðvitað þannig, eins og hv. þingmaður benti á með frásögn af annars vegar orðum Marks Flanagans hjá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum og hins vegar því sem haft er eftir sendiherra Svíþjóðar, að það er mjög margt óljóst í þessu enn þá, þetta er auðvitað eitthvað sem allir neita. Það er komið til okkar, íslenskra þingmanna og íslensks almennings, og sagt að við verðum að samþykkja Icesave-samninginn af því að allir séu að hóta okkur. Það er verið að setja okkur í þumalskrúfu og eins og sagt hefur verið, það verður alls staðar lokað á okkur og allir munu beita okkur kúgun og þrýstingi ef við samþykkjum ekki Icesave-samninginn einn, tveir og þrír. Þetta hefur verið sagt alveg frá því í byrjun sumars, það hefur verið talað svona af hálfu ríkisstjórnarinnar.

En eigum við þá ekki rétt á því að reyna að fá fram hverjir það eru sem hafa verið að kúga okkur? Hverju þeir hafa verið að hóta og hvernig? Eigum við ekki rétt á því? Mér finnst mörgum spurningum ósvarað í þeim efnum. Auðvitað skýrðust ákveðnir þættir í ræðu hæstv. fjármálaráðherra á miðvikudaginn en enn þá stangast orð einstakra manna á, (Forseti hringir.) hæstv. ráðherra ríkisstjórnarinnar, (Forseti hringir.) Alþjóðagjaldeyrissjóðsins og ríkisstjórna Norðurlandanna. Og við vitum ekki hver sannleikurinn er.