138. löggjafarþing — 38. fundur,  4. des. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[17:45]
Horfa

Birgir Ármannsson (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Það er auðvitað alveg rétt. Það er svo margt sem er óútskýrt varðandi alþjóðasamskipti í þessu máli og þess vegna tel ég að utanríkisnefnd sé ein þeirra nefnda sem þyrftu að fara yfir málin milli umræðna þegar þar að kemur. Gefum okkur að eitthvað sé fyrir hendi sem segja þarf í trúnaði, þá er utanríkisnefnd bundin trúnaði varðandi upplýsingar sem koma þar fram og eru viðkvæmar. Ég legg því til að ef það eru einhver atriði sem hæstv. ríkisstjórn vill upplýsa gagnvart hæstv. utanríkisnefnd í þessum málum og það má verða til þess að skýra þessa hluti eitthvað, verði það gert.

Það er auðvitað rétt sem hv. þm. Sigurður Ingi Jóhannsson segir að það vísar hver á annan af þeim aðilum sem við eigum við í þessum efnum. Hvernig eigum við að byggja ákvarðanatöku á svo óljósum forsendum?

Ég velti mjög fyrir mér: Getum við tekið jafnafdrifaríka ákvörðun og hér um ræðir án þess að svona upplýsingar séu á hreinu? Ég velti því líka fyrir mér hvort hæstv. ríkisstjórn er ekki búin að koma sér í óskaplegt klandur í þessum efnum með því að upplýsa hlutina ekki alveg eins og þeir eru.

Ég held að ef ríkisstjórnin hefði upplýst um að erlend ríki eða alþjóðastofnanir beittu raunverulegum kúgunar- og þvingunaraðgerðum, hefðu líkurnar aukist á því að ríkisstjórnin gæti aflað sér stuðnings fyrir málstað sínum. En meðan talað (Forseti hringir.) er í hálfkveðnum vísum og óljósum (Forseti hringir.) yfirlýsingum er miklu erfiðara að festa hönd á (Forseti hringir.) nokkru og erfiðara að hafa samúð með sjónarmiðum ríkisstjórnarinnar (Forseti hringir.) í þessum efnum.