138. löggjafarþing — 38. fundur,  4. des. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[17:48]
Horfa

Frsm. meiri hluta fjárln. (Guðbjartur Hannesson) (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Það hefur verið forvitnilegt að fylgjast með þessum umræðum og þeim atburðum sem hér hafa átt sér stað í dag þar sem birtist yfirlýsing frá stjórnarandstöðuflokkunum um hugmyndir þeirra um lausn á Icesave-málinu fræga, flokkum sem voru fylgjandi því að við stæðum við skuldbindingar okkar. Það átti að semja um málið, þeir settu það í ákveðinn farveg, völdu að setja það í embættismannanefnd undir stjórn Baldurs Guðlaugssonar, þeir mótuðu allt ferlið og hér talaði einn af þeim þingmönnum sem átti þátt í að taka allar þær ákvarðanir. Nú er svo komið að þeir flokkar sem ekki treystu ríkisstjórninni til eins eða neins hafa gert hér tillögu um að ríkisstjórnin fjalli aftur um málið. Til vara óska þeir eftir því að leitað verði liðsinnis Evrópusambandsins. Það væri gaman að heyra hv. þm. Gunnar Braga Sveinsson og Ásbjörn Óttarsson lýsa yfir stuðningi við Evrópusambandið til þess að leiða mál til lykta á milli stjórnar og stjórnarandstöðu í Alþingi Íslendinga. (Gripið fram í.)

Mig langar að beina spurningu til hv. þm. Birgis Ármannssonar sem er nú löglærður, af því að ein af tillögunum er sú að menn sæki málið fyrir íslenskum dómstólum. Það hefur verið rætt um það að hér sé um að ræða að hluta til alþjóðlega samninga. Þekkir hv. þingmaður ekki mörg dæmi um að erlend ríki hafi farið fyrir héraðsdóm í öðru ríki til þess að sækja mál sitt gagnvart öðru ríki? Eigum við von á því að hollenska og breska ríkið muni að sækja kröfu sína í héraðsdómi varðandi þessi mál?

Varðandi þann hræðsluáróður sem hér hefur verið talað um að hafi farið fram, hefur hann fyrst og fremst verið hjá stjórnarandstöðunni sem reynir að mála skrattann á vegginn endalaust, (Gripið fram í.) að hér geti allt farið til fjandans vegna þess að við ráðum ekki við skuldbindingar okkar. (Gripið fram í.) Þar fela menn skuldbindingarnar sem raunverulega er við að glíma og ég glími við í fjárlaganefnd, þ.e. 180 milljarða halli. Og ef við reiknum það nú á vöxtunum sem hv. þm. Tryggvi Þór notaði og bætum Seðlabankanum við, er hér um að ræða 600–700 milljarða skuld eftir sex ár og miklu stærra mál en Icesave-málið. (Forseti hringir.) Ég held að menn ættu að reyna að fara að horfast í augu við veruleikann en vera ekki að fela sig (Forseti hringir.) á bak við eitthvað annað.