138. löggjafarþing — 38. fundur,  4. des. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[17:57]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S):

Virðulegi forseti. Við ræðum hér enn og aftur svokallaða Icesave-samninga eða ríkisábyrgðina vegna þeirra. Ég vil hins vegar fá að byrja ræðu mína á því að segja, af því að hér voru tveir hv. þingmenn að munnhöggvast og ég hef svo sem sagt það áður, að það sem mér finnst dapurlegast í þessu er að við skulum ekki standa saman öll sem eitt til þess að berjast á móti því óréttlæti sem klárlega er verið að beita okkur. Það hefur margoft komið fram í umræðunni hjá mörgum hæstv. ráðherrum og hv. þingmönnum að það er með óbeinum og beinum hætti alltaf verið að þvinga okkur til einhverra úrræða. Hver bendir á annan og það dapurlegasta við þetta er að við skulum ekki nýta þá krafta sem við þurfum svo sannarlega á að halda núna til þess að standast þessa árás. Það var mjög dapurlegt að við skyldum ekki ná að fylgja eftir þeirri miklu samstöðu sem náðist hér á þingi í sumar þegar við náðum að smíða saman þessa efnahagslegu fyrirvara. Við hefðum getað farið öll saman að berjast fyrir þeim. Ég verð að segja, virðulegi forseti, að það veldur mér miklum áhyggjum því að ef einhvern tímann er nauðsynlegt fyrir íslenska þjóð að standa saman er það einmitt á ögurstundum sem þessum.

Virðulegi forseti. Þannig er með þetta mál að það fennir oft og fljótt í sporin og oft dettur á milli þilja það sem verið er að ræða á hverjum tíma. Því vil ég vitna í mjög merkilega grein sem rituð var af tveimur mönnum, Lárusi Blöndal og Stefáni Má Stefánssyni, fyrir um fimm vikum síðan. Þar fóru þeir yfir nýja frumvarpið og báru það saman við það gamla miðað við fyrirvarana og lögðu mat sitt á hvað í raun og veru stæði eftir af því sem var fyrir. Við erum einmitt að takast á um það hér í þingsalnum, hvað stendur eftir af fyrirvörunum sem voru samþykktir í lok ágúst. Ég vil vitna aðeins í þessa grein en í einni millifyrirsögninni stendur: „Nýja frumvarpið“. Með leyfi forseta:

„Nú er komið fram nýtt frumvarp sem gerir ráð fyrir breytingu á lögum nr. 96/2009 frá 2. september sl. Þótt skammt sé um liðið síðan Alþingi samþykkti lögin um ríkisábyrgðina eru breytingarnar verulegar. Sú grundvallarbreyting hefur orðið samkvæmt frumvarpinu að snúið er til baka til fyrra horfs, þ.e. ábyrgð ríkisins er nú aftur orðin hluti af lánasamningunum, dómsvald til að túlka samningana fellur undir breska dómstóla og ábyrgð íslenska ríkisins er aftur orðin skilyrðislaus.“

Virðulegi forseti. Það sem þessir ágætu lögfræðingar meta hér er að núna er ábyrgð íslenska ríkisins aftur orðin hluti af lánasamningunum og aftur orðin skilyrðislaus.

Með leyfi forseta:

„Áhugavert er að skoða hvernig fer fyrir þessum veigamestu fyrirvörum sem hér að framan eru taldir ef frumvarpið verður samþykkt.

1. Tímabinding ábyrgðarinnar er felld út. Ríkisábyrgðin er sem sagt ótímabundin. Margar kynslóðir Íslendinga gætu því orðið ábyrgar fyrir Icesave-skuldbindingunum.“

Virðulegi forseti. Þetta eru einmitt þær áhyggjur sem við mörg hver höfum að margar kynslóðir Íslendinga gætu orðið ábyrgar fyrir Icesave-skuldbindingunum. Þess vegna, þó svo að ég vilji ekki spá neinum dómsdegi eða þar fram eftir götunum, deili ég skoðunum með þessum ágætu mönnum um að efnahagsleg framtíð okkar gæti verið hugsanlega í hættu, þótt maður voni náttúrlega að svo verði ekki. Sú áhætta er þó fyrir hendi og ég er því miður ekki tilbúinn til að taka hana. Aðrir munu axla þá ábyrgð og það mun verða meitlað í texta hverjir greiða þessari ríkisábyrgð atkvæði sitt.

Með leyfi forseta:

„2. Efnahagslegu viðmiðunum er breytt verulega. Þannig skal ávallt greiða vexti óháð því hvort hagvaxtaraukning verður á Íslandi eða ekki. Fjárhæð vaxtanna hleypur á mörgum tugum milljarða kr. á ári, a.m.k. fyrstu árin. Hafi meiri hluti fjárlaganefndar og þeirra ráðgjafar reiknað rétt þegar þessi fyrirvari um greiðsluhámark var settur inn í lögin um ríkisábyrgðina, er ljóst að þessar fjárhæðir eru líklega umfram það sem þjóðarbúið getur borið. Það þýðir að þjóðin getur væntanlega ekki staðið undir þessari ríkisábyrgð.“

Virðulegi forseti. Þetta eru mjög alvarleg orð sem margir hv. þingmenn og hæstv. ráðherrar verða að taka til greina. Þetta verða menn að skoða og fullvissa sig um að þeir séu ekki að taka slíka sénsa. Ég vil líka minna á það, virðulegi forseti, að Eva Joly, sem ég hef vitnað áður í, skrifaði einmitt um það grein í sumar að verið væri að setja margra milljarða evruskuld á íslenska þjóð sem hún hefði ekki lagalega skyldu til þess að greiða. Eva Joly sagði líka: Sem íslensk þjóð getur ekki greitt. Mér þykir því mjög dapurlegt að hér skuli hver stjórnarþingmaðurinn á fætur öðrum koma upp — í andsvörum reyndar, þeir hafa lítið tekið til máls í þessari umræðu — og halda því fram að þetta séu bara einhverjar dómsdagsspár af hálfu stjórnarandstæðinga. Ég verð að mótmæla því harðlega, virðulegi forseti. Þetta eru áhyggjur sem margir hafa haft og komið á framfæri og þær ber að taka alvarlega.

Með leyfi forseta:

„3. Íslenska ríkið getur ekki tryggt að ríkisábyrgðin falli niður jafnvel þótt þar til bær úrskurðaraðili kæmist að þeirri niðurstöðu að ríkið bæri ekki ábyrgð á innstæðum. Samkvæmt frumvarpinu skal ríkisábyrgð vera bundin þeim fyrirvara að viðræður fari fram milli Íslands og viðsemjenda þess um áhrif slíkrar niðurstöðu á lánasamningana og skuldbindingar ríkisins. Bretar og Hollendingar eru auðvitað ekki bundnir af þessum ákvæðum og samkvæmt lánasamningunum er ábyrgð íslenska ríkisins skilyrðislaus eins og áður sagði. Íslenska ríkið á það því alfarið undir breskum og hollenskum stjórnvöldum hvert framhald málsins verður. Niðurstaða dómstóla breytir því engu um Icesave-ábyrgðina verði þetta frumvarp samþykkt nema Hollendingar og Bretar samþykki það.“

Virðulegi forseti. Það er náttúrlega alveg með ólíkindum að ef þessi lagalega skylda sem við gerum athugasemdir við, hvort heldur sem er stjórnarmeirihlutinn eða stjórnarandstæðingar — að það skuli þá vera alfarið undir ákvörðunum Breta og Hollendinga komið hvort hægt sé að takmarka ríkisábyrgðina. Mikil breyting hefur orðið á fyrirvörunum síðan í sumar. Innifalið í þeim fyrirvörum sem voru samþykktir í sumar, þar sem við vefengdum sannarlega lagalega skyldu af því að það er lagaleg óvissa um greiðsluskyldu Íslendinga, var að ef dæmt hefði verið okkur í hag voru Bretar og Hollendingar skyldugir til þess að setjast niður með okkur og ræða það. Ef ekki hefði komist niðurstaða í þær viðræður, virðulegi forseti, gat ríkisstjórn Íslands í raun og veru takmarkað ríkisábyrgðina einhliða.

Það má eiginlega líkja þessu við að maður færi í dóm við tryggingafélagið sitt og niðurstaða þess dóms væri að Hæstiréttur dæmdi viðkomandi aðila í hag en úrskurðurinn væri þannig að þeim aðila sem hefði unnið málið yrði falið að funda með tryggingafélaginu og spyrja þá hvernig þeir ætluðu að verða við fullnustu dómsins. Þetta er náttúrlega óforsvaranlegt. Þegar menn vísa í einhverja einhliða yfirlýsingu frá Bretum, Hollendingum og Íslendingum um að þetta sé viðurkennt verð ég að segja, virðulegi forseti, að eins og bresk og hollensk stjórnvöld hafa komið fram við Íslendinga í þessu máli er ekki mikið hald í því. Það er rétt að árétta að það má ekki orða þetta sem svo að breska og hollenska þjóðin hafi gert það heldur fyrst og fremst bresk og hollensk yfirvöld. Það er með ólíkindum ef menn ætla að hafa haldreipi í því í framtíðinni að vera undir hælnum á stjórnvöldum í þessum ríkjum því að reynslan af því er ekki góð.

Eins og ég sagði í upphafi máls míns er verið að kúga okkur Íslendinga í þessu máli til að ganga að óaðgengilegum kröfum um að standa skil á þessum skuldbindingum sem var stofnað til af einkaaðilum. Ég velti því fyrir mér hvort ekki væri nær fyrir okkur hér á hinu háa Alþingi að vinna að því að setja fram frumvörp eða gera einhverjar breytingar á lögum svo að við getum þó alla vega reynt að kyrrsetja eignir þessara manna, sem ugglaust er búið að dreifa um allan heim og í gegnum mörg félög. Við höfum ekki gert mikið í því. Það hefði kannski verið nær fyrir okkur að einhenda okkur í það því að það verður aldrei nein sátt meðal íslensku þjóðarinnar um að taka á sig slíkar skuldbindingar á meðan ekkert er reynt að gera til þess að binda eignir þessara manna, þó svo að við höfum gert samkomulag við Breta og Hollendinga um að hjálpa okkur við það. Það er gríðarlega mikilvægt, frú forseti, að við göngum einmitt í svoleiðis verk og reynum að standa saman sem ein heild en ekki berjast innbyrðis.