138. löggjafarþing — 38. fundur,  4. des. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[18:08]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Í dag var sett fram hugmynd, sem er svo sem ekki alveg ný af nálinni, á dv.is. Það er nú svo magnað að það er eigandi þess blaðs, Hreinn Loftsson, sem skrifar greinina en þar segir, með leyfi forseta:

„Deilan verður ekki leyst með öðrum hætti en viðræðum milli æðstu ráðamanna ríkjanna. Við megum ekki gefast upp.“

Síðan segir þessi ágæti maður, með leyfi forseta:

„Við getum ekki sætt okkur við óréttlætið sem verið er að beita okkur og ég er sannfærður um að undir niðri séu allir þingmenn sama sinnis. Því vil ég hvetja þingmenn til að fresta umræðu um Icesave í tvo til þrjá mánuði. Þegar í stað verði sett upp samráðsnefnd allra þingflokka sem hafi það verkefni að marka stefnu í viðræðum milli viðkomandi ríkja til að leiða málið til lykta. Viðræðum þar sem fullt tillit verði tekið til réttmætra hagsmuna og fjárhagslegrar stöðu íslensku þjóðarinnar.“

Síðan veltir hann því upp að kallaðir verði til þrautreyndir erlendir samningamenn, milligöngumenn.

Ég vil freista þess að spyrja hv. þingmann hvað honum finnist um þessa hugmynd, að í fyrsta lagi verði skipuð nefnd allra þingflokka sem fari yfir málið og samræmi sjónarmið og viðbrögð Íslendinga og þá samhliða fái til sín einhverja af reyndustu samningamönnum sem völ er á til þess að leiða þetta mál til lykta. Ég kem inn á það í seinna andsvari mínu en þar með er ég ekki að gera neitt lítið úr því sem við samþykktum í dag og sendum í tilkynningu frá okkur að Evrópusambandið gæti miðlað málum heldur vil ég bara vekja athygli á þessari ágætu hugmynd.