138. löggjafarþing — 38. fundur,  4. des. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[18:14]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Já, það er alveg klárt í mínum huga að ein af þeim mistökum sem við gerðum voru að gera einkaréttarlegan samning með reyndar ákveðnum flækjum. Það er mjög óheppilegt. Það hefði auðvitað verið mikið betra að gera milliríkjasamning á milli ríkjanna. Við megum ekki gleyma því að við erum í raun að veita ríkisábyrgð fyrir sjálfstætt félag sem er tryggingarsjóðurinn. Hann hefur ákveðin lög fyrir sjálfan sig en er ekki beint undir ríkisvaldinu og þess vegna gerum við þetta náttúrlega með þessum hætti. Þess vegna er flækjustigið meira. Við erum í raun og veru að veita ríkisábyrgð til Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta til þess að hann geti staðið við sínar skuldbindingar.

Hv. þingmaður kom inn á það sem hv. þm. Guðbjartur Hannesson nefndi hér áðan, að stjórnarandstaðan leggur til að leita til Evrópusambandsins um að leysa þetta. Það gefur augaleið að þar er verið að horfa til þess að fá einmitt Evrópusambandið og ríki þaðan til þess að koma og miðla málum og leggja þá mat á það hvort Brussel-viðmiðin verði uppfyllt í þessum samningum. Það liggur fyrir að þetta er hugsunin. Ég minni á að Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, fyrrverandi hæstv. utanríkisráðherra, benti einmitt á þetta og gagnrýndi mjög ríkisstjórn Íslands í sumar eftir að fyrri samningarnir lágu fyrir, þ.e. sem skrifað var undir 5. júní, fyrir að hafa ekki Evrópusambandið áfram inni í samningunum. Það þarf ekki annað en að hugsa til embættis ríkissáttasemjara til að sjá að það reynir einmitt að höggva á hnúta í svona deilum. Það er mjög farsælt að menn noti slíkar aðferðir en séu ekki í sandkassaleik eins og ég vil kalla að gera þetta með þessum hætti sem er algjörlega óviðunandi.