138. löggjafarþing — 38. fundur,  4. des. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[18:43]
Horfa

Unnur Brá Konráðsdóttir (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Þetta er alveg hárrétt hjá hv. þingmanni, það væri kannski eina leiðin að setjast niður með öllu þessu fólki í einu og fá það á hreint í eitt skipti fyrir öll hver það er sem fer með rétt mál og hver ekki. Ég tel að við getum ekki búið við þessa hringavitleysu öllu lengur og gruna í rauninni alla okkar samstarfsmenn um græsku í þessu. Þetta er bara einföld spurning og það hlýtur að vera einfalt svar við henni og þá væri hægt að athuga hvaða orsakir eða hugrenningar liggja þar að baki. Kannski er þetta allt saman misskilningur, kannski er bara enginn að reyna að stoppa þetta. Kannski höfum við ekki sýnt nógu mikinn áhuga. Ég veit það ekki. En mann er hreinlega farið að gruna það eftir að hver aðilinn er farinn að benda á annan og þetta er komið í heilan hring ef ekki tvo.

Ég tel, frú forseti, að þetta sé eina leiðin en ég tel líka mikilvægt að stjórnvöld í fullvalda ríki láti ekki bjóða sér svona framkomu. Stjórnvöld í fullvalda ríki eiga að sjálfsögðu að hafa forustu um það og leitast eftir því að fá svör við þessu: Hver er að stoppa þetta? Hver er það og á hvaða forsendum byggir það? Getur verið að það séu einfaldlega Bretar og Hollendingar sem hafi þessi áhrif bæði á AGS og eins Svía, vini okkar? Ef svo er þurfum við einfaldlega að fá að vita það til að við vitum inn í hvers konar samtök Samfylkinguna dreymir um að ganga. Það er einfaldlega eitthvað sem mig þyrstir í að vita.

Nú er það svo að ESB eru ekki alslæm samtök, þau eru bara ekki rétti vettvangurinn fyrir okkur að mínu mati. Ég met það svo og ég mun róa að því öllum árum að við verðum ekki aðilar að Evrópusambandinu, alveg eins og ég mun nota alla mína krafta í það að vera hér í þessu máli og rökræða það við fólk og koma þeim rökum á framfæri hvers vegna við eigum ekki að samþykkja þetta frumvarp. Ekkert getur stöðvað mig í því, hvorki ákvarðanir stjórnarliða um það að yrða ekki á mig í ræðustól né ákvarðanir ríkisstjórnarinnar (Forseti hringir.) um að stuðla að því að hér sé talað sólarhringum saman. Það stöðvar (Forseti hringir.) mig ekki neitt. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)