138. löggjafarþing — 38. fundur,  4. des. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[18:45]
Horfa

Sigurður Ingi Jóhannsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Mig langar að þakka hv. þm. Unni Brá Konráðsdóttur fyrir áhugaverða ræðu. Það var mjög athyglisvert að heyra hvað hv. þingmenn eða forsvarsmenn Samfylkingarinnar — ég veit nú ekki hverjir það eru sem ritstýra eða skrifa í þetta merkilega rit, Rauða þráðinn. Hv. þm. Ragnheiður Elín Árnadóttir las svolítið upp úr þessu riti áðan fyrir okkur í þinginu og það var svolítið sérkennilegur texti.

Hv. þingmaður bendir á hvort við horfum nú á rökþrot Samfylkingarinnar í málinu og að þeir fari þá einhliða leið að gleyma því að þeir hafi verið í ríkisstjórn á árunum 2007. Þeir skrifa „hrunflokkurinn“ og gleyma því að það voru tveir flokkar við völd þegar hrunið varð. Ég velti fyrir mér hvort þeir séu farnir að stunda þessar grímulausu hótanir sem hafa svo margoft komið hér til tals.

En það hefur verið svolítið erfitt að henda reiður á því að það ber það hver af sér að hafa staðið fyrir einhverjum hótunum eða í vegi fyrir því að við höfum fengið lán, til að mynda frá Norðurlöndunum, eða fyrir endurskoðun Alþjóðagjaldeyrissjóðsins. Ég velti því fyrir mér hvort hv. þingmaður geti séð það fyrir sér hvaða andlit eru á bak við þessar grímulausu hótanir. Eru þessar hótanir ef til vill innlendar og kannski sprottnar frá Samfylkingunni sjálfri þar sem hún skrifar þennan sannleika allan í þennan ágæta Rauða þráð og reynir að berja í brestina, (Forseti hringir.) sem væri nú greinilega áhugavert að lesa?