138. löggjafarþing — 38. fundur,  4. des. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[18:47]
Horfa

Unnur Brá Konráðsdóttir (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Mikið þykja mér þingmenn Framsóknarflokksins vera glöggir hér á þingi. Ég held að hv. þm. Sigurður Ingi Jóhannsson hafi þarna lagt grunn að ákveðinni niðurstöðu varðandi hverjir það eru sem standa fyrir þessum hótunum. Ég tel það alla vega augljóst af þeim fjölpósti sem ég hef séð frá Samfylkingunni að það er einmitt verið að stuðla að því af hálfu Samfylkingarinnar. Það er verið að dreifa einhverjum áróðri af þeirra hálfu sem á sér enga stoð í raunveruleikanum og það er verið að saka Sjálfstæðisflokkinn um að reyna að framkalla nýtt efnahagshrun. Hvers vegna í ósköpunum ætti Sjálfstæðisflokkurinn eða nokkur annar flokkur að reyna að gera það? Og allir þessir rúmlega tuttugu og fimm þúsund Íslendingar sem hafa skrifað undir áskorun til forseta Íslands um að veita þessum lögum ekki staðfestingu, verði þau að veruleika, er ekki verið að saka það sama fólk um að framkalla hér nýtt efnahagshrun? Eru þetta ábyrg stjórnvöld? Við í stjórnarandstöðunni erum ásökuð um að vera óábyrg með því að tala um þetta mál. Það er þvert á móti. Það erum við sem hér stöndum og tökum þátt í þessari umræðu sem sýnum ábyrgð vegna þess að við ætlum ekki að láta þetta verða að veruleika. (Gripið fram í: Nei.) Við ætlum ekki að gera það.

Það kemur ekki til greina að við göngumst undir þessa nauðasamninga og Samfylkingin verður einfaldlega að skilja það að hún verður að reyna að framkalla draum sinn um ESB-aðild með einhverjum hætti en með þessum aðgöngumiða. Þetta samþykki ég ekki. Þetta samþykkja ekki hv. þingmenn Framsóknarflokksins, ekki hv. þingmenn Hreyfingarinnar og ekki hv. þingmenn Sjálfstæðisflokksins. Og það eru jafnframt a.m.k. rúmlega tuttugu og fimm þúsund Íslendingar úti í þjóðfélaginu sem samþykkja ekki að þetta mál fari í gegnum allt kerfið og verði að lögum án þess að þeir fái að segja sitt um það.

Við skulum bara sjá til, frú forseti, hversu margir Íslendingar munu að undirrita þessa áskorun til forsetans.