138. löggjafarþing — 38. fundur,  4. des. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[19:30]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S):

Frú forseti. Ég vil byrja á því að lesa upp úr lögum um þingsköp Alþingis, nr. 55/1991, 1. mgr. 53. gr., með leyfi frú forseta:

„Skylt er þingmönnum að sækja alla þingfundi nema nauðsyn banni.“

Þetta eru lög, frú forseti. Í salnum er einn þingmaður þannig að menn virðast túlka þetta ansi rúmt, frú forseti. Það læddist jafnvel að mér sá grunur áðan að einhverjir þingmenn vissu hreinlega ekki af þessum fundi því að annars mundu þeir að sjálfsögðu mæta á fundinn í samræmi við þessa grein. Sumir hafa reyndar túlkað þetta þannig — og ég hef reyndar lagt til að greininni yrði breytt á þann veg, að þingmönnum sé skylt að fylgjast með umræðum á þingfundi. Ég sakna þess líka að engir ráðherrar skuli vera viðstaddir til að hlusta á umræðuna um þetta mikilsverða mál og það er mjög athyglisvert.

Ég ætla að taka dálítið nýjan pól í hæðina í þessari ræðu. (Gripið fram í.) Ég ætla að byrja á því að lesa úr ræðu hæstv. félags- og tryggingamálaráðherra, Árna Páls Árnasonar, sem hann flutti 2. júlí 2009, fyrsta daginn sem fyrra samkomulagið var rætt.

Þá segir hæstv. ráðherra:

„Virðulegi forseti. Ég er að fara að halda mína ræðu sem fyrsti talsmaður míns flokks í þessari umræðu.“ — Hann skilgreindi sem sagt sjálfan sig sem fyrsta talsmann flokksins.

Svo segir hann áfram:

„Sama var að gera hv. þm. Valgeir Skagfjörð. Ég sakna formanns Sjálfstæðisflokksins í salnum undir ræðum okkar beggja. Hér komu fram fulltrúar Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks áðan með miklum lúðrablæstri og kölluðu eftir því að forustumenn ríkisstjórnarflokkanna væru staddir í þingsalnum þegar verið væri að ræða þessi mál.“

Svo segir hann áfram:

„Ég vil fá að bíða með að flytja ræðu mína þangað til formaður Sjálfstæðisflokksins kemur í salinn.“

Nú er ég eiginlega í sömu stöðu og þessi hv. þingmaður (Gripið fram í.) og ég ætla að biðja hv. þingmann að vera ekki að trufla mig í þessari ræðu því þá getur meira en verið að mér fipist. Nú er ég í þessari sömu stöðu að ég sakna þess að hvorki ráðherrar né stjórnarandstöðuþingmenn séu í salnum en ég ætla samt að halda áfram ræðu minni í trausti þess að þeir hlusti einhvers staðar.

Umræddur hv. þingmaður hélt eina ræðu 2. júlí sem fyrsti talsmaður síns flokks. Hann fór í tíu andsvör, hann hélt eina ræðu um fundarstjórn forseta, sem ég var að lesa upp rétt áðan og síðan ekki söguna meir, frú forseti, síðan ekki söguna meir. Þetta er fyrsti talsmaður, að eigin sögn, Samfylkingarinnar í þessu máli, í þessari umræðu. Allar götur þar til fyrirvararnir voru samþykktir hefur ekki komið nein atkvæðaskýring, ekki neitt. Ræðan sem ég hef nú farið í gegnum var ekki beint gagnrýni á þann samning sem við vorum þá að ræða, hráan frá samninganefndinni án nokkurra breytinga, þetta var fyrsti dagurinn sem þetta var rætt á þingi.

Svo talar þessi hæstv. ráðherra ekki meir og í seinna máli nr. 76, sem við erum að ræða hér núna, hann hefur ekki haldið eina einustu ræðu og ekki komið í eitt einasta andsvar en fimm sinnum hefur hann komið upp um fundarstjórn. Þetta er fyrsti talsmaður síns flokks, þ.e. Samfylkingarinnar, í umræðunni. Þetta er náttúrlega með ólíkindum, frú forseti.

Það sem ég ætla að gera núna, frú forseti, er að ég ætla að reyna að ímynda mér hvaða skoðun þessi hæstv. ráðherra hefur á málinu af því að hann gefur það ekki upp og einhvern veginn þarf ég að tala um afstöðu hans í þessu máli en þar sem ég veit hana ekki þá þarf ég að gefa mér hana. Hann getur þá komið og leiðrétt það sem ég segi.

Ég hugsa að afstaða hæstv. ráðherra helgist fyrst og fremst af því að hann vilji halda lífi í ríkisstjórninni, hann er jú ráðherra og það er þægilegt og margir vilja vera ráðherrar, — ég held að það sé eiginlega fyrsta mótífasjónin. Og vegna þess að hans eigin flokksmaður, hæstv. forsætisráðherra, hefur hótað því að ríkisstjórnin falli ef þetta samkomulag verði ekki samþykkt og vegna þess að hér á að bresta á frostavetur og það hefur ýmislegt átt að bresta á er þetta fyrsti hvati hans til þess að styðja málið. Ég hygg nefnilega að hann styðji málið þó að ég viti það ekki, en ég gef mér það. Hann getur þá mótmælt því og komið hér upp í andsvari eða ræðu og lýst því yfir að hann styðji málið ekki eða ætli að sitja hjá. Það má vel vera að þannig sé staðan.

Ég hygg að það sé líka annar hvati, frú forseti, og sá hvati er aðildarbeiðni Íslands að Evrópusambandinu. Umræddur hæstv. ráðherra er afskaplega mikill áhugamaður um Evrópusambandið og þegar maður hlustar á hann halda ræður, ég hef gert það í gegnum tíðina, margar ágætar, þá skal alltaf koma fram að aðild að Evrópusambandinu bjargi hreinlega öllu. Vextir eiga að lækka, við eigum að taka upp evruna, gengið styrkist — eða þá er reyndar ekkert gengi lengur — vöruverð lækkar, atvinnuleysi hverfur og ég veit ekki hvað, veðrið batnar o.s.frv. Ef við göngum í Evrópusambandið, þá verður allt gott sem áður var slæmt og öll þau vandamál sem við glímum við núna hverfa náttúrlega eins og dögg fyrir sólu. Sennilega er það þess vegna sem hann treystir sér til að styðja þetta voðalega frumvarp sem við ræðum hér í dag. Ég hef gefið mér þessar tvær ástæður.

Síðan hugsa ég að hann sé með sama einkenni og mjög margir stjórnarliðar, hann getur ekki horfst í augu við vandann. Vandinn er svo stór að hann getur ekki horfst í augu við hann. Hvað gerir hann þá? Hann ætlar hreinlega að gleyma honum. Hann ætlar að henda honum aftur fyrir sig og halda áfram eins og ekkert hafi gerst, eins og ekkert Icesave hafi nokkurn tíma rekið á hans fjörur og hann hefur jú sjö ár til þess að lifa í þeirri góðu trú og síðan bara gengur þetta einhvern veginn. En, frú forseti, ég fullvissa bæði frú forseta og þennan hæstv. ráðherra um það — en ég reikna með að hann sé að hlýða á mál mitt einhvers staðar því að það er lagaskylda — að vandinn er ekkert horfinn þó að maður kasti honum aftur fyrir sig. Hann blómstrar þar og vex eins og púki á fjósbita og verður feitari og feitari með hverju árinu í allar áttir eftir því hvaða áhætta fellur til, hvort pundið hækkar vegna verðhjöðnunar þar, sem ég held að sé mesta áhættan, hvort lítið innheimtist af eigum Landsbankans, hvort neyðarlögin haldi ekki, sem ég tel frekar ólíklegt en yrði óskaplega mikið áfall fyrir Ísland og þennan samning alveg sérstaklega. Hæstv. ráðherra heldur þetta.

Ég má ekki dvelja lengi við hann því að ég ætla að ræða næst um hv. þm. Helga Hjörvar sem er formaður efnahags- og skattanefndar en það mál sem nú er til umræðu skiptir verulegu máli efnahagslega. Sá hv. þingmaður, sem ég reikna með að sé líka að hlusta á mál mitt vegna þess að það er enginn þingmaður með fjarvist í dag, enginn þingmaður, ég kannaði það áðan, sá ágæti þingmaður sem hélt eina ræðu og tíu andsvör um fyrra málið, sem var samþykkt sem lög sagði 21. ágúst 2009, undir lok þeirrar umræðu, með leyfi frú forseta:

„Við sögðum í umsögn okkar, meiri hlutinn, að við beindum því til fjárlaganefndar að huga að efnahagslegum fyrirvörum og að í meginatriðum væri forsenda þess að við gætum staðið við þessar skuldbindingar að hér yrði hagvöxtur 3% á ári næstu 15 árin.“

Frú forseti. Hann gefur sér það sem forsendu að hagvöxtur á Íslandi verði 3% á ári í 15 ár. Þetta hlýtur að vera mjög vafasöm forsenda, frú forseti, í ljósi þeirra upplýsinga sem við höfum fengið undanfarið, þ.e. að mikil skuldsetning þjóða geti valdið því að hagvöxtur verði lítill sem enginn.

Svo segir þessi ágæti þingmaður — ég get nú ekki lesið allt áður en ræðutíminn er búinn, þetta er allt of stutt, en hann segir:

„. … vegna þess að auðvitað er það þannig að það greiðir engin þjóð meira en hún getur.“

Hann leggur mikla áherslu á að fyrirvararnir séu mjög mikils virði. Nú eru þeir farnir og mig langar gjarnan til að heyra álit hv. þingmanns á því hvað gerist og hvaða afstöðu hann hefur til nýja málsins því að hann hefur ekki talað eitt einasta orð í umræðunni um þetta mál sem nú er til umræðu.