138. löggjafarþing — 38. fundur,  4. des. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[19:48]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Þar sem stjórnarliðar mæta ekki í umræðuna þurfum við að geta okkur til um afstöðu þeirra. Ég ætla að fara í gegnum ræður fleiri þingmanna sem ekki hafa tjáð hug sinn og reyna að meta hvað þeir eru eiginlega að hugsa. Ég hugsa að Vinstri grænir séu mjög uppteknir af því að halda vinstri stjórn við völd á Íslandi, það gefi þeim heilmikið og þeir fórni ansi miklu fyrir það.

Ég vil minna á að Vinstri grænir voru greinilegir sigurvegarar í síðustu kosningum. Þeir höfðu lofað að sækja ekki um aðild að Evrópusambandinu. Þeir höfðu lofað að samþykkja ekki Icesave. Þeir höfðu lofað að vinna helst ekki með Alþjóðagjaldeyrissjóðnum. Þeir unnu kosningasigur út á þetta, sérstaklega, held ég, út á það að ganga ekki í Evrópusambandið.

Hvað gerist svo, frú forseti? Sótt er um aðild að Evrópusambandinu án nokkurra skilyrða. Ég skora á hv. þingmenn að skoða umsóknina. Hún er fjórar línur, engin skilyrði, ekkert minnst á þingsályktunartillögu Alþingis, stjórnarskrána eða þjóðaratkvæðagreiðslu eða neitt. Það er bara sótt um. Ef þær 27 þjóðir mundu allar senda bréf til baka og samþykkja umsóknina væri Ísland orðið aðili að Evrópusambandinu án viðræðna. Þannig var umsóknin. Að þessu standa þingmenn og þingflokkur Vinstri grænna og héldu hér afskaplega furðulegar ræður. Má í því sambandi nefna ræðu hæstv. ráðherra, Svandísar Svavarsdóttur. Hún var ótrúleg og mun lifa í þingtíðindum lengi og menn munu lesa hana sér til skemmtunar.