138. löggjafarþing — 38. fundur,  4. des. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[19:52]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Það var einmitt það sem ég var að segja, þeir geta ekki horfst í augu við vandann. Ég spurði hæstv. utanríkisráðherra að því fyrir ekki mjög löngu hvort hann hafi ekki verið í ríkisstjórn á því árabili sem hv. þingmaður nefndi, frá 2007–2009, og hann viðurkenndi það. Hæstv. utanríkisráðherra, Össur Skarphéðinsson, viðurkenndi að hafa verið í ríkisstjórn þó að þeir tali alltaf eins og Sjálfstæðisflokkurinn einn beri ábyrgð alla tíð.

Það merkilega er, frú forseti, að í sívaxandi mæli eru þingmenn stjórnarliða að neita ábyrgð á núverandi ríkisstjórn. Ég ætla að biðja hv. þingmenn alla að taka eftir því að æ oftar vísa hv. þingmenn stjórnarliða í það sem gerðist áður, það er eins og þeir séu ekki við völd núna. Þeir vísa alltaf aftur í fortíðina en ekki í það sem þeir eru að gera núna, eins og t.d. sá samningur sem við ræðum nú, eins og samningurinn sem gerður var í sumar, sem er alfarið á ábyrgð núverandi stjórnarliða, alfarið. En þegar þeir tala um það byrja þeir alltaf að tala um 18 ára stjórnartíð Sjálfstæðisflokksins o.s.frv. Það er eins og þeir hafi ekki verið við völd.

Ég held að kenning mín, sem ég setti fram hér áðan, sé rétt um það að vandinn er svo stór að hv. stjórnarliðar geti ekki horfst í augu við hann, þeir sjái hann ekki. Þeir geta ekki séð hann og þeir ætla að kasta honum aftur fyrir sig og gleyma honum. En ég get fullvissað alla hv. þingmenn, jafnt stjórnarliða sem stjórnarandstæðinga, um það að þessi vandi mun minna á sig ef hann verður samþykktur svona, sem ég vona eindregið að verði ekki.