138. löggjafarþing — 38. fundur,  4. des. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[19:56]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Þá þarf maður að fara í gegnum ýmsa möguleika. Í fyrsta lagi eru einhverjar líkur á því, og vaxandi reyndar, að Icesave-frumvarpið, sem við ræðum hér, verði ekki samþykkt. Ég gaf því fyrst eingöngu 2% líkur að þetta yrði ekki samþykkt. En eftir því sem tímarnir líða og eftir því sem fleiri upplýsingar koma fram um alls konar hluti, stjórnarskrárbrot og áhættu af falli krónunnar, gengisáhættu og vaxtadæmið sem bent var á, að Bretar lána innlánstryggingarsjóði sínum með lægri vöxtum en Íslendingum, o.s.frv. — einnig vegur þungt undirskriftasöfnunin sem er í gangi.

Nú hafa 25 þúsund Íslendingar skorað á forsetann. Sú undirskriftasöfnun mun hafa mjög mikil áhrif til þess að málinu verði hugsanlega frestað. Ef þetta mál skyldi nú illu heilli verða samþykkt hér á Alþingi kemur enn upp sú staða að forsetinn hafni undirskrift. Töluverðar líkur eru á því því að hann samdi mjög merkilegt plagg þegar hann skrifaði undir lögin frá því í sumar. Það eru töluverðar líkur, sérstaklega ef undirskriftir verða margar, segjum að þarna verði 35–40 þúsund manns, á að þá verði þessi lög aldrei undirrituð og fari í þjóðaratkvæðagreiðslu.

Þó má vel vera að lögin verði samþykkt og undirrituð og allt gangi vel á Íslandi. Einnig getur verið að okkur muni ganga vel að borga þetta vegna þess að af tilviljun gangi hlutirnir vel. Þá munu menn ekki muna eftir því sérstaklega. En ef hitt kemur upp, sem líka er ákveðin tilviljun, ákveðnar líkur eru á því að hér fari allt í kaldakol, munu þeir vissulega bera þann kross mjög lengi og ekki vilja við hann kannast.