138. löggjafarþing — 38. fundur,  4. des. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[20:24]
Horfa

Ragnheiður E. Árnadóttir (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka þingmanninum fyrir einstaklega góða ræðu að vanda í þessari umræðu. Mig langar til að lesa hér örlítinn bút sem ég vildi biðja hv. þingmann um að fylgjast með þegar ég les. Hér er bútur úr Rauða þræðinum, 56. tölublaði, 4. árgangi, föstudaginn 4. desember 2009, með leyfi forseta:

„Sjálfstæðisflokkurinn og Framsókn framkölluðu hrun íslensks efnahagskerfis. Rauð ljós blikkuðu á íslenska fjármálastarfsemi og að lokum var Ísland fryst. Búið er að eyða ómældum kröftum í að breyta þessu og er Icesave lykillinn að viðreisn. Nú ætla hrunflokkarnir með skipulögðu málþófi að framkalla annað hrun og innleiða þar með ísöld í íslenskt efnahagslíf.“

Mig langar til að spyrja hv. þingmann hvort hann geti tekið undir þessa söguskoðun eða hvort honum þyki e.t.v. að það vanti eitthvað inn í þessa lýsingu. Getur verið að einn ákveðinn stjórnmálaflokkur sýni þarna kannski eilitla hógværð, óþarfa hógværð jafnvel, með því að vera ekki nefndur á nafn? Mundir þú ekki ætla að þessi flokkur væri dálítið skúffaður yfir því að ef sagan yrði skrifuð og hans yrði ekki minnst? Ég bið hv. þingmann um að svara þessum spurningum.