138. löggjafarþing — 38. fundur,  4. des. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[20:40]
Horfa

Sigurður Ingi Jóhannsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á að þakka hv. þingmanni fyrir kröftuga og öfluga ræðu sem hreyfði enn á ný fullt af nýjum málum, nýjum efnisatriðum sem stöðugt eru að koma fram í þessu málinu og þetta mál er auðvitað þannig vaxið að það er kannski ekkert skrýtið.

Hv. þm. Ólöf Nordal hóf mál sitt á því að fjalla um verkstjórnina og leiðsögnina í þessu máli sem ríkisstjórnin hefur, eða hæstv. forsætisráðherra skyldi maður ætla að eigi að hafa verkstjórnina og reyndar hæstv. fjármálaráðherra, og nefndi að það væri ýmislegt að þar. Flokksbróðir hv. þingmanns, hv. þm. Árni Johnsen, kallaði þetta skjökt í ræðu í gær og það væri gaman að heyra hvaða orð hv. þm. Ólöf Nordal á yfir þessa leiðsögn og þessa verkstjórn.

Mig langar aðeins að rifja það upp í þessu sambandi að það hefur auðvitað komið hér margítrekað fram að forustumenn ríkisstjórnarflokkanna virðast ekki vera sammála um það til að mynda hvaðan þær hótanir, þær grímulausu hótanir sem öðru hvoru virðast líða hér yfir okkur og gera það að verkum að a.m.k. hæstv. fjármálaráðherra fullyrðir að við verðum að samþykkja þetta mál á næstu dögum. Hann taldi reyndar að það væru grímulausar hótanir frá aðilum innan Evrópusambandsins sem hæstv. forsætisráðherra hefur neitað. Síðan höfum við auðvitað heyrt að þær hótanir hafi átt að koma héðan og þaðan að, frá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum, frá Norðurlöndunum, og allir virðast neita þessu. Þetta er kannski spurning um það hvernig haldið er á verkstjórninni.

Við þingmenn erum að ræða efnisatriði málsins í ræðustól í staðinn fyrir að taka málið inn í nefndir þingsins, eða taka þetta út eins og hv. þingmaður sagði. Mig langar kannski að heyra farið aðeins meira í dýptina á því hvernig verkstjórinn (Forseti hringir.) minn er og hvaða leiðir hv. þingmaður (Forseti hringir.) sér út úr því.