138. löggjafarþing — 38. fundur,  4. des. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[20:47]
Horfa

Ólöf Nordal (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Hæstv. félags- og tryggingamálaráðherra Árni Páll Árnason lýsti því yfir við 1. umr. Icesave-málsins í júní að þeir sem teldu að það væri óráð að samþykkja þessa samninga ættu kannski að líta til þess að það væri alveg hægt að samþykkja þá og síðan virkja strax endurskoðunarákvæðin. Mér þótti þetta mjög kyndugt hjá hæstv. félags- og tryggingamálaráðherra. Ég hefði haldið að ef menn teldu að samningar væru óviðunandi færu þeir ekki að samþykkja þá til að virkja endurskoðunarákvæði. Það væri þá nær að samþykkja þá ekki og leita eftir nýjum samningum eða reyna að gera nauðsynlegar lagfæringar. Það var ákveðið að gera það í sumar þrátt fyrir að það tæki töluverðan tíma að fá hv. þingmenn Samfylkingarinnar til að fallast á þá leið. Í mínum huga er alveg skýrt að það samþykkir enginn samninga sem eru óviðunandi fyrir annan samningsaðilann.

Varðandi þessi endurskoðunarákvæði er líka ljóst að þau eru ekki það hald sem menn hafa haldið fram að þau væru. Það er ekki eins mikið gagn í þeim og menn hafa talið fólki trú um. Þvert á móti bjóða þeir upp á að við Íslendingar getum, ef eitthvað kemur upp einhvers staðar annars staðar, farið upp í flugvél, flogið til London og drukkið notalegan tebolla með Bretum. Við sjáum þá bara til hvernig þeim finnst kompaníið og hvort þeim finnst ástæða til þess að taka samningana upp. Þetta er ekkert raunverulegt endurskoðunarákvæði. Það eru engin ákveðin skilyrði fyrir því eða forsendubrestur af neinum toga, þetta er allt saman mjög óljóst og loðið. Það er ekki hægt að flýta sér og klára málið þegar verið er að vara sérstaklega við því að samþykkja þessa samninga núna og ástæða sé til að fresta því. Það er órökrétt og mér finnst það ekki koma til mála. Menn eiga að gefa sér ögn lengri tíma og vita hvort hægt sé að verja þjóðina betur en gert er.