138. löggjafarþing — 38. fundur,  4. des. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[20:59]
Horfa

Sigurður Ingi Jóhannsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á því að þakka hv. þm. Einari K. Guðfinnssyni fyrir fína ræðu og innihaldsríka. Mig langar að grípa aðeins inn í ræðuna þar sem hv. þingmaður ræddi þá leyndarhyggju og þær leynihótanir sem hafa legið í þessu máli kannski allt of lengi. Alltaf eru einhverjir sem hóta okkur og ýmislegt á að gerast í kjölfarið ef við samþykkjum ekki Icesave-samninginn, frumvarpið eins og það liggur fyrir núna og eins var það tilfellið í sumar.

Mig langar að velta því upp og spyrja hv. þingmann hvort ekki megi halda því fram að það sé ekki fyrir tilstuðlan ríkisstjórnarinnar — og eiginlega alls ekki heldur megi frekar halda því fram að það sé vegna þess að hópur fólks með leikstjórann Gunnar Sigurðsson í broddi fylkingar hafi náð að brjóta upp þennan leyndarhjúp leynihótananna með því að skrifa bréf til framkvæmdastjóra Alþjóðagjaldeyrissjóðsins, Dominiques Strauss-Kahns, sem hann svaraði og sagði að Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn hefði aldeilis ekki hótað einu eða neinu og það væri engin krafa frá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum um að nauðsynlegt væri að ganga frá Icesave-samningunum áður en menn gætu fengið endurskoðun á áætlun Alþjóðagjaldeyrissjóðsins. Má ekki halda því fram að Dominique-áhrifin af því hafi síðan orðið að pressan var sett á Norðmenn og síðan Svía og svo hvern og annan koll af kolli, þangað til ekkert stendur eftir annað en stóra spurningin hvort þessar hótanir sem liggja alltaf í loftinu séu allar heimatilbúnar og komnar beint frá hendi ríkisstjórnarinnar sjálfrar? Henni sé einhverra hluta vegna mjög mikill hagur og akkur í því að við klárum samninginn (Forseti hringir.) á þessum nótum.