138. löggjafarþing — 38. fundur,  4. des. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[21:25]
Horfa

Birgir Ármannsson (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Hv. þm. Sigurður Ingi Jóhannsson vék í ræðu sinni að ýmsum þáttum og m.a. að bloggfærslu Sigurbjargar Sigurgeirsdóttur stjórnsýslufræðings sem lagði til að hæstv. forsætisráðherra, eins og ég skildi það, tæki málið út úr þinginu og setti það í einhvern annan samningafarveg. Það er út af fyrir sig áhugaverð hugmynd og fellur ekki illa að þeirri tillögu sem forustumenn stjórnarandstöðuflokkanna kynntu fjölmiðlum í dag. Ég tel reyndar að betri svipur væri á því að orða það á þann veg að þingið sjálft tæki ákvörðun um að hætta umfjöllun um málið frekar en forsætisráðherra tæki málið úr þinginu. En látum það vera, alla vega er þetta áhugaverð hugmynd. Reyndar má geta þess til gamans að einmitt í dag var sami stjórnsýslufræðingur skipaður í nefnd forsætisráðherra um endurskoðun á lögum um Stjórnarráðið. Það er því greinilegt að þessi stjórnsýslufræðingur nýtur trausts forsætisráðherra og vonandi hlustar hæstv. forsætisráðherra á ráðleggingar hennar í dag.

Ég ætlaði að spyrja hv. þingmann aðeins nánar út í ummæli hæstv. efnahags- og viðskiptaráðherra, ég tek undir ummæli hv. þingmanns um að sá hæstv. ráðherra hefur lítið sést í þinginu að undanförnu. Við höfum reyndar fengið þær skýringar að hæstv. ráðherra hafi verið erlendis alla vega í dag og kannski fleiri daga en hann hefur hins vegar ekkert sést í umræðunni nema eina kvöldstund þegar hann kom hingað og talaði samanlagt í þrjár mínútur um fundarstjórn forseta og í einu andsvari. (Forseti hringir.) Eins og bent hefur verið á eru það málaflokkar hæstv. ráðherra sem eru til umfjöllunar alla daga í þessu máli. Hvað finnst hv. þingmanni um það?