138. löggjafarþing — 38. fundur,  4. des. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[21:28]
Horfa

Sigurður Ingi Jóhannsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Birgi Ármannssyni fyrir fyrirspurnina. Ég tek undir að það væri auðvitað meiri reisn yfir því ef þingið sjálft tæki málið út frekar en að forsætisráðherra gerði það. En ástæðan fyrir því að ég hafði áhuga á að taka þetta mál upp og vitna í grein Sigurbjargar Sigurgeirsdóttur stjórnsýslufræðings var einmitt sú að hún er ekki hluti af stjórnarandstöðunni og hefur notið trausts ríkisstjórnarinnar. Mér fannst það mjög áhugavert að sífellt fleiri aðilar, ólíkir aðilar í samfélaginu, tækju undir orð okkar þess efnis að nauðsynlegt væri að breyta vinnulaginu við þetta mál. Ég tel að það mætti alveg sameina þessar hugmyndir og finna því bestu leiðina, hvernig hægt væri að ná því. (Forseti hringir.) Eru komnar tvær mínútur, frú forseti? Tíminn líður fljótt.

(Forseti (UBK): Ég vek athygli á því að það eru þrír hv. þingmenn sem óska eftir að veita andsvar og því er tíminn aðeins ein mínúta í seinni umferð.)