138. löggjafarþing — 38. fundur,  4. des. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[21:31]
Horfa

Sigurður Ingi Jóhannsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég tek undir það hjá hv. þm. Birgi Ármannssyni að það er alveg óásættanlegt og hefur í raun og veru ekkert með það að gera hvort hæstv. ráðherra er kjörinn þingmaður eður ei, sérstaklega þegar um er að ræða hæstv. efnahags- og viðskiptaráðherra. Þetta mál er á hans könnu og þá væri mjög mikilvægt og nauðsynlegt að hann væri við umræðuna. Það er eftirtektarvert og aldeilis sérkennilegt að hann skuli aldrei hafa tekið hér efnislega til máls við þessa umræðu.

Auðvitað getur komið fyrir að hæstv. ráðherrar eigi ekki heimangengt. Eitt kvöld í vikunni kölluðum við eftir því að fá viðkomandi hæstv. ráðherra á staðinn og hann var þá erlendis en ég trúi því ekki að hann hafi verið erlendis alla þessa umræðu, hann hlýtur að hafa átt þess kost á einhverjum tímapunkti að koma hingað og taka til máls (Forseti hringir.) og reyna að útskýra afstöðu sína annars staðar en bara í fjölmiðlum.