138. löggjafarþing — 38. fundur,  4. des. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[21:36]
Horfa

Einar K. Guðfinnsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Mér er ljóst að kannski eru ekki orðnir margir sem hafa mikla trú á þessari ríkisstjórn en innst inni hélt ég að a.m.k. ríkisstjórnin sjálf hefði trú á sér. En ég held að þessi ríkisstjórn komist ekki bara í Íslandssöguna, ég hygg að hún muni komast í mannkynssöguna sem fyrsta ríkisstjórn sem lýsir því yfir opinberlega að hún hafi vantraust á sjálfri sér. Þessi yfirlýsing hæstv. ráðherra, í ljósi þess að ríkisstjórnin hefur lagt fram frumvarp sem ekki nýtur meiri tiltrúar úti í heimi en svo að menn trúa því ekki að það verði að lögum fyrr en það hefur þá gerst, hygg ég að verði algjört einsdæmi.

Mál af þessu taginu hlýtur að bera þannig að að ríkisstjórnin tryggi sér þingmeirihluta. Það verður hins vegar ekki séð af þessu og það ríkir greinilega algjört vantraust í garð ríkisstjórnarinnar og þar með á hagsmunum Íslendinga að mati ríkisstjórnarinnar sjálfrar þrátt fyrir þær yfirlýsingar sem ráðherrar gefa og þrátt fyrir að þetta frumvarp hafi verið lagt fram. Þetta er einsdæmi, virðulegi forseti. Ríkisstjórnin er á góðri leið með að komast inn í mannkynssöguna sem fræg að endemum.