138. löggjafarþing — 38. fundur,  4. des. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[21:38]
Horfa

Sigurður Ingi Jóhannsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég get svo sem tekið undir margt af því sem kom fram í ræðu hv. þingmanns. Það er líka vert að velta fyrir sér mörgum yfirlýsingum hæstvirtra ráðherra í gegnum tíðina varðandi þetta mál, alveg frá upphafi. Ef þær yrðu skoðaðar og bornar síðan saman við það sem gerist í málinu er það alveg rétt hjá hv. þingmanni að það er stöðugt verið með yfirlýsingar í þessa átt eða hina en það er lítið sem skilar sér í raunveruleikanum.

Það verður að segjast eins og er að ef ríkisstjórnin hefði haft fullt vald á þessu máli hefði það væntanlega farið í gegn hér á fyrstu vikum sumarþingsins, a.m.k. stóðu væntingar sumra hæstv. ráðherra, forustumanna ríkisstjórnarinnar, til þess. Síðan hefur það gerst að sem betur fer tók þingið hér völdin og málið tók miklu betri svip á sig þegar líða tók á sumarið, en því miður horfum við upp á það hér og nú í lok haustþingsins að nú eigi að fara að klára málið skyndilega. Ég vonast enn til þess að þingið muni hafa betur en yfirlýsingar einstakra ráðherra og málið muni fá þann farsæla endi að verða tekið út úr þinginu til gaumgæfilegrar skoðunar og jafnvel farin sú leið sem stjórnarandstöðuflokkarnir leggja til, að málinu verði vísað til ríkisstjórnarinnar aftur og hún fari í viðræður við viðsemjendur okkar með milligöngu til að mynda Evrópusambandsins.