138. löggjafarþing — 39. fundur,  5. des. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[10:01]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (F):

Frú forseti. Ég hef í ræðum mínum að undanförnu talið upp þau atriði sem ég tel allra mikilvægast að nefna í þessu máli og reynt að tala stuttlega um hvert þeirra. Nú er tíminn sem eftir er af þessari umræðu því miður takmarkaður svo ég verð að reyna að fara enn hraðar í gegnum þau.

Ég var kominn að atriði númer 41 og var byrjaður að tala um allan þann spuna sem settur hefur verið af stað í þessu máli til að afvegaleiða umræðuna. Þar er eitt stórt atriði, fullyrðingar þess efnis eða a.m.k. vangaveltur sem víða er haldið á lofti, að á endanum munum við ekki þurfa að greiða þetta, það sé langskynsamlegast að byrja á því að afgreiða málið frá þinginu og á einhvern hátt komumst við hjá því síðar, þetta sem sagt reddist á einn eða annan hátt án þess að það sé útskýrt nánar. Þetta er að sjálfsögðu afar hættulegt viðhorf því að það er ekki byggt á neinum rökum. Maður gæti skilið það ef viðkomandi væri þeirrar skoðunar að samningarnir væru ólögmætir vegna þess að um nauðungarsamninga væri að ræða eða eitthvað slíkt en, nei, þetta er ekki sett fram á þeim forsendum. Þetta er sett fram á þeim forsendum að ef við samþykkjum þetta nú muni menn sjá síðar að við ráðum ekki við að greiða þetta eða þá að einhvers konar nýir styrkir komi frá Evrópusambandinu þannig að Ísland verði fyrst ríkja á framfæri Evrópusambandsins sem muni borga fyrir það skuldirnar þó að að sjálfsögðu séu engin dæmi um slíkt, eins og nýleg dæmi af Lettlandi, Ungverjalandi og fleiri ríkjum sanna. Þessu er haldið á lofti til að draga úr áhyggjunum nú. Þetta er því miður það hugarfar sem hefur valdið þessari þjóð alveg gríðarlegu tjóni, að hugsa sem svo að hlutirnir hljóti að reddast með einhverjum hætti svoleiðis að það eigi ekki að vera að hafa of miklar áhyggjur af því hverju sinni. Í þessu máli er þetta stórhættulegt hugarfar. Því skyldu Bretar og Hollendingar sem ganga svo hart fram núna og gerðu á okkar erfiðustu stundu segja sem svo einhvern tíma seinna þegar búið er að skjalfesta þetta og skrifa undir skuldabréf: Jæja, þið þurfið ekki að borga þetta? Að mönnum skuli detta í hug að viðhafa svona málflutning er algjörlega fráleitt en því miður í samræmi við það hugarfar sem hefur verið ríkjandi hjá ríkisstjórninni í þessu máli. Þegar menn eru þetta óábyrgir í máli sem getur varðað 1.000 milljarða kr. er því miður ekki von á góðu.

Númer 42 er alveg hreint ævintýralega vitlaust. Það eru fullyrðingarnar sem fallið hafa nú síðast, held ég, frá hæstv. utanríkisráðherra, þar áður frá formanni fjárlaganefndar, um að það frumvarp sem nú er lagt fyrir Alþingi og þeir fyrirvarar sem í því felast séu líklega betri ef eitthvað er en það sem Alþingi afgreiddi síðast, fyrirvararnir hafi styrkst við það að lögfræðingar og aðrir sérfræðingar Breta og Hollendinga hafi legið yfir þessu og tætt það í sig vikum saman, þeir séu með öðrum orðum búnir að gæta hagsmuna Íslendinga betur en fulltrúar Íslands. Þetta er að sjálfsögðu eins órökrétt og frekast má verða en þessu hefur verið haldið fram og er enn eitt dæmið um það hversu fráleit umræðan í þessu máli hefur verið af hálfu ríkisstjórnarinnar. Að reyna að halda því fram að frumvarpið sem nú kemur fram sé betra vegna þess að það sé búið að fara betur í gegnum það og búið að verða við óskum Breta og Hollendinga sem hafa gengið alveg ótrúlega hart fram í málinu stenst enga rökskoðun. Mikilvægt er þó að hafa þetta í huga og setja í samhengi við aðra hluti því að oft og tíðum velta menn því fyrir sér að það hljóti að vera einhver rökrétt ástæða að baki því hversu mikla áherslu ríkisstjórnin leggur á að þetta mál verði klárað. En menn skyldu ekki gefa sér það og ég tel að þetta sé eitt af dæmunum sem sýni að svo er alls ekki: Það vantar alla rökhugsun í það hvernig stjórnin vinnur þetta mál og ber að leita skýringa á því annars staðar, m.a. í því að ráðherrar í ríkisstjórninni hafa einfaldlega verið búnir að segja of mikið, búnir að grafa sig of djúpt í skotgröfina og treysti sér ekki upp úr henni aftur.

Númer 43 er ekki skárra, alveg ævintýralega vitlaust, það varðar Brussel-viðmiðin í þessu nýja frumvarpi. Brussel-viðmiðin margumræddu voru eins konar söluábyrgð, þ.e. það má líkja því við það að þegar menn gera samning um að kaupa vöru fylgi einhver ábyrgð á því að varan sé í lagi. Íslendingar ákváðu að ganga til samninga en því fylgdi sú ábyrgð að þeir samningar yrðu í lagi, þeir yrðu í samræmi við ákveðin gæðaviðmið og öryggisviðmið — en hvað gerist svo? Svo kemur á daginn að þeir samningar sem við sitjum uppi með standast engin þessara viðmiða, eru sem sagt í algjöru ólagi. Það er ekki búið að uppfylla á nokkurn hátt þessi margumtöluðu Brussel-viðmið. Hvað gerir ríkisstjórnin þá? Hvað gerðist núna varðandi Brussel-viðmiðin í samskiptum við Breta og Hollendinga? Jú, þeir voru fengnir til að staðfesta skriflega að samningarnir væru í samræmi við Brussel-viðmiðin og þetta kynnti ríkisstjórnin sem sigur fyrir sig í málinu. Til að setja þetta í samhengi er þetta eins og ef einhver kaupir vöru, raftæki, tökum sem dæmi sjónvarp og fær ábyrgð með sjónvarpinu, það sé í lagi með það, öryggið í lagi og gæðin. Svo fer viðkomandi heim með sjónvarpið og kemst að því að það kviknar ekki á því, það neistar úr því og er nánast búið að kveikja í húsinu. Hann fer í búðina með sjónvarpið og segir: Hér er ég með sjónvarp og ég er með ábyrgð vegna kaupa á þessu sjónvarpi. Verslunarmaðurinn, sem í þessu tilviki táknar þá Breta og Hollendinga, segir: Já, viltu fá nýtt sjónvarp eða láta laga þetta? Nei. Nei, nei, ég vil það ekki, ég vil bara að þú skrifir upp á að þetta sjónvarp sé í lagi og ég sé með ábyrgð. Jaá, hvað áttu við með því? Ég vil bara fá staðfestingu á því að þetta sjónvarp sé í samræmi við ábyrgðina. Já, en varstu ekki að segja að það væri ónýtt? Nei, það er ekki atriðið. Ég vil bara að þú staðfestir að það sé ábyrgð á því og þetta sé í samræmi við ábyrgðina.

Svona var gengið til samninga um þessi Brussel-viðmið. Ríkisstjórnin vildi eingöngu ná því fram að Bretar og Hollendingar fullyrtu að samningarnir væru í samræmi við Brussel-viðmiðin þótt þeir væru það ekki. Þetta er algjörlega óskiljanlegt og reyndar því miður í samræmi við annað atriði sem ríkisstjórnin taldi sigur sinn í þessu máli, varðandi lagalega fyrirvarann, þegar því var haldið fram að það væri gott fyrir okkur að nú væru Bretar og Hollendingar búnir að viðurkenna að við Íslendingar teldum okkur ekki lagalega skuldbundin í málinu. Þeir viðurkenndu ekki neitt nema það að þeir vissu að við teldum okkur ekki skuldbundin. Er þetta betra fyrir okkur? Nei, augljóslega ekki vegna þess að þá liggur fyrir að þeir gera sér grein fyrir því að við teljum okkur ekki lagalega skuldbundin en samt ætlum við að taka á okkur skuldbindingarnar. Þá þýðir væntanlega lítið fyrir okkur að koma síðar, eða hvað, og segja að við höfum ekki verið raunverulega skuldbundin því að við erum búin að segjast ætla að taka þetta á okkur þrátt fyrir það. Þetta taldi ríkisstjórnin sér einnig einhvern veginn til tekna í málinu.

Númer 44 er þetta endalausa tal um neyðarlögin og fullyrðingar um að það sé á einhvern hátt verið að stofna neyðarlögunum í hættu ef við föllumst ekki á allar kröfur Breta og Hollendinga. Þetta stenst enga skoðun frekar en fyrrnefnda atriðið. Í fyrsta lagi hafa Bretar og Hollendingar gríðarlegan hag af neyðarlögunum því að þau setja innstæðueigendur, skjólstæðinga þeirra, ofar en aðra kröfuhafa í kröfuhafaröðinni. Ef neyðarlögin féllu mundi það fyrst og fremst skaða Breta og Hollendinga.

Í öðru lagi hefur hvort eð er verið og verður áfram látið reyna á neyðarlögin. Það þarf ekki Breta og Hollendinga til þess. Það er þegar búið að höfða mál vegna neyðarlaganna og þau verða eflaust mörg og Icesave-samkomulagið kemur á engan hátt í veg fyrir það eða breytir á nokkurn hátt niðurstöðu slíkra málaferla.

Í þriðja lagi skaða Icesave-samningarnir okkur alveg gífurlega ef svo óheppilega og illa skyldi fara að neyðarlögin héldu ekki. Hver er staðan þá? Þá erum búin að ráðstafa öllum eignum gamla Landsbankans á einn aðila sem síðan er dæmt að megi ekki einn fá þessar eignir. Þá þarf ríkið að bæta hinum aðilanum, þ.e. hinum kröfuhöfunum, vegna þess að allar eignirnar voru farnar yfir á innstæðueigendurna. Þetta getur valdið alveg gífurlegu tjóni og eru alveg óhemjuupphæðir nefndar í því sambandi, hundruð milljarða, en jafnvel má líta svo á að tjónið gæti orðið enn meira vegna þess að krafan gæti orðið sú að ekki aðeins yrði öðrum kröfuhöfum bætt það sem tekið var af þeim og sett yfir á innstæðueigendur heldur ættu þeir að njóta jafnræðis við innstæðueigendurna, það ætti að gera jafn vel við aðra kröfuhafa og gert var við innstæðueigendur svo að ríkið þyrfti enn meira að leggja til til hinna kröfuhafanna. Að halda því fram að þessir Icesave-samningar verji okkur á einhvern hátt hvað varðar neyðarlögin er algjör fjarstæða. Það er 180° frá sannleikanum.

Númer 45 er sú endalausa hringavitleysa sem hefur átt sér stað í þessari umræðu. Samfylkingin hélt því fram eftir að samningarnir voru loksins birtir að alltaf hefði staðið til að birta þá. Ég ætla ekki að fara nánar út í þá umræðu hér. Það er búið að gera ítarlega grein fyrir því að það er að sjálfsögðu ekki rétt. Ég þarf ekki annað en að fletta upp í gömlum fréttum til að sjá það. Svo jókst ósvífnin þegar tókst eftir margra vikna baráttu að berja saman fyrirvarana sem voru samþykktir af Alþingi. Þá fullyrtu þingmenn ríkisstjórnarinnar að að sjálfsögðu hefði alltaf staðið til að setja fyrirvara, eins fráleitt og það er og hafði birst á sjónvarpsstöðvum, í blöðunum og í þinginu vikum saman í harðri baráttu fyrir því að fá fyrirvara setta. Fram að því hafði því verið haldið fram að slíkt þyrfti að sjálfsögðu ekki. Hvað gerist svo nú þegar búið er að henda fyrirvörunum? Þá kemur sama fólk enn og aftur og segir: Auðvitað var aldrei raunhæft að hafa þessa fyrirvara. Hvernig datt mönnum það í hug? Svona hefur þessi umræða gengið fyrir sig með endalausri hringavitleysu.

Frú forseti. Nú hef ég ekki náð lengra en að atriði númer 45 og þarf að nota síðustu mínútur ræðu minnar til að gera grein fyrir því hvers vegna ég mun jafnvel ekki hafa tíma til að fara í gegnum öll atriðin með takmörkun ræðutíma, en það er vegna þess að nú hefur verið gert samkomulag um að ljúka 2. umr. þessa máls. Það er mikilvægt að hafa í huga að það er gert til að knýja á um að hlutir sem í heilt ár hafa ekki verið skoðaðir, grundvallaratriði málsins verði skoðuð, svo sem eins og að fá mat enskra lögfræðinga á þessum samningum sem ensk lög eiga að gilda um eða þá mat á því hvort frumvarpið yfir höfuð stenst stjórnarskrá eða þá mat á því hvort íslenska ríkið mun ráða við að borga samninginn, samtals 16 grundvallaratriði málsins. Nú hefur það verið staðfest og er þá eins gott að ríkisstjórnin og þingið standi við það að fjárlaganefnd muni fara í gegnum öll þessi mál og fá greinargerðir um þau. Það er ákaflega mikilvægt því að þó að staðan sé þegar orðin sú að enginn geti nokkurn tíma í framtíðinni haldið því fram að ekki hafi legið fyrir nægar staðreyndir í málinu til að hægt væri að taka upplýsta ákvörðun, það getur enginn afsakað sig með því að hann hafi ekki fengið allar upplýsingarnar, held ég að ekki veiti af því að þetta liggi allt saman formlega fyrir og búið sé að fá allar þær upplýsingar sem hugsanlega geta orðið til þess að koma vitinu, leyfi ég mér að segja, fyrir stjórnarliða í þessu máli því að tjónið af því að samþykkja þetta er óbætanlegt og viðvarandi.