138. löggjafarþing — 39. fundur,  5. des. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[10:18]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (S) (andsvar):

Frú forseti. Það er mikilvægt að fá fram þessa samstöðu stjórnarandstöðu sem hefði verið óskandi að hefði verið samstaða alls þings. Við höfum undirstrikað það í ræðu eftir ræðu hér á síðustu dögum að samstaðan hefði verið það sem allir hefðu kosið nema greinilega ríkisstjórnin.

Það er mikilvægt að draga það fram hvað það er nákvæmlega sem stjórnarandstaðan hefur þó fengið í gegnum þetta samkomulag sem náðist við ríkisstjórnina. Það er líka mikilvægt að fá það fram, af því að það kemur hvergi fram í viðtalinu við hæstv. fjármálaráðherra, hvað hefur þó áunnist. Það er alveg ljóst að í byrjun ætlaði ríkisstjórnin ekki að koma neitt til móts við kröfur okkar varðandi það að fara betur yfir málið í nefnd, yfir stjórnarskrárfyrirvarana, yfir efnahagslegu fyrirvarana, yfir efnahagslegu hætturnar sem stafa af því að samþykkja þennan makalausa samning.

Ég vil því gjarnan fá að heyra það betur frá hv. þm. Sigmundi Davíð Gunnlaugssyni hvað hann telur að þó hafi áorkast á (Forseti hringir.) síðustu dögum.