138. löggjafarþing — 39. fundur,  5. des. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[10:55]
Horfa

Ragnheiður E. Árnadóttir (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég fór yfir það í ræðu minni áðan hversu mikilvægt ég teldi þetta samkomulag vera sem náðist hér í gær. Þegar ég fór heim í gær taldi ég að þarna hefði unnist áfangasigur. Ég tek undir með hv. þingmanni, við náðum gríðarlegum áfanga í þessu máli vegna þess að með því erum við að tryggja að það fái efnislega meðferð. Ríkisstjórnin sem ber náttúrlega ábyrgð á því að koma hér með fjárlög, koma tekjuáætlun fjárlaga þannig fyrir að hér verði fjárlög í gildi 1. janúar 2010, náði líka áfanga með þessu samkomulagi vegna þess að þá var hún að tryggja að hún kæmi sínum málum að í þinginu. Ég taldi að þetta væri góður samningur fyrir báða aðila, eins og samningar eiga að vera, að báðir aðilar gætu vel við unað. En það er greinilegt að hæstv. fjármálaráðherra hefur ekki liðið þannig vegna þess að hann mælir þessi orð og hefur þessi ummæli eins og höfð hafa verið eftir honum. Ég er alveg sammála því að hann hefur upplifað sig lokaðan inni í einhvers konar skuggasundi og getur ekki leynt því hvað hann er ósáttur við að þurfa að gefa það eftir að láta málið fá efnislega meðferð í þinginu.

Ég held að þetta sé góður sigur fyrir okkur í stjórnarandstöðunni. Ég held að þetta sé gríðarlegur sigur fyrir íslenska þjóð ef þau meina eitthvað með þessu. Við þurfum að passa upp á að þetta verði ekki enn eitt leikritið, enn ein brellupólitíkin, að „spinnarar“ Samfylkingarinnar sem hafa strokað hana út úr ríkisstjórn 2007–2009, eins og við sáum í pósti sem sendur er félagsmönnum Samfylkingarinnar, geri ekki úr þessu leikrit.

Varðandi það hvort þingmenn og ráðherrar hafi haft niðrandi orð um (Forseti hringir.) samþingmenn sína man ég eftir skipti þar sem þessi (Forseti hringir.) sami hæstv. ráðherra, þá þingmaður, viðhafði orð sem eru (Forseti hringir.) ekki eftir hafandi.