138. löggjafarþing — 39. fundur,  5. des. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[11:28]
Horfa

Unnur Brá Konráðsdóttir (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir andsvarið og spurninguna. Jú, að sjálfsögðu hefði átt að vera búið að skoða þessa liði en ég tel að undir umræðunni hér hafi upplýst hvers vegna það var ekki búið. Hér sátu hv. þingmenn stjórnarliðsins í hliðarsal þegar ég var í ræðustól að kalla eftir þessum upplýsingum, og kölluðu fram í að þetta lægi allt saman fyrir og það væri búið að skoða þetta allt saman. Vissulega voru sum þessara atriða skoðuð í sumar en málið er gjörbreytt, það er búið að gjörbreyta málinu með þessum nýju samningum sem ríkisstjórnin undirritaði. Fallið hefur verið frá nánast öllum atriðum fyrirvaranna og bara vaxtaákvæðið eitt gjörbreytir því hvernig greiðslum okkar kemur til með að verða háttað, verði frumvarpið samþykkt. Jú, að sjálfsögðu hefði átt að vera búið að skoða þetta og meðan hv. þingmenn stjórnarliðsins hafa verið að kvarta yfir því hvað við eyðum miklum tíma í þetta mál hefði t.d. verið hægt að nota þann tíma betur. Það hefði verið hægt að nota þann tíma í að skoða þessi atriði. Ég tel það alveg fullljóst, frú forseti.

Varðandi samkomulagið sem undirritað var í gær eru það í rauninni ákveðin tímamót í þessu máli að loksins fellst ríkisstjórnin og ríkisstjórnarflokkarnir á Alþingi á það að rétt sé að kanna betur ýmis atriði og er það vel. Ég hrósa stjórnarliðum fyrir það að sjá loksins ljósið í því máli. Ég ætla rétt að vona, frú forseti, að þetta samkomulag haldi, að það verði í raun og veru farið yfir þessi atriði og þau skjöl og þau gögn sem koma út úr því verði skoðuð og að fólk hér sé ekki búið að múlbinda sig svo við málstað ríkisstjórnarinnar að það geti ekki tekið rökum, að það geti einfaldlega ekki breytt um afstöðu þegar það sér að sá málflutningur sem við höfum haldið fram er réttur og á við rök að styðjast.