138. löggjafarþing — 39. fundur,  5. des. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[11:44]
Horfa

Birgir Ármannsson (S):

Hæstv. forseti. Sá söngur hefur töluvert verið hafður uppi af hálfu þingmanna ríkisstjórnarflokkanna að í þessari umræðu og meðan á meðferð þessa máls hefur staðið í þinginu hafi ekkert nýtt komið fram. Áhugasamir þurfa ekki að fletta lengi í þingræðum frá þessu tímabili til að sjá að svo er ekki. Fjölmörg ný sjónarmið hafa komið fram, ítarlegur rökstuðningur fyrir veigamiklum athugasemdum við frumvarpið eins og það liggur fyrir auk þess sem komið hafa fram nýjar upplýsingar eins og rakið hefur verið, bæði hvað varðar efnahagslega þætti og eins lagalega. Samt er sagt að ekkert nýtt hafi komið fram. Helsta innlegg stjórnarliða til þessarar umræðu síðustu daga hefur verið tvennt, annars vegar: Hér hefur ekkert nýtt komið fram. Jafnvel hv. þingmenn sem ekki hafa sést í þingsal dögum saman koma í ræðustól og segja: Hér hefur ekkert nýtt komið fram. Og hins vegar er sagt að stjórnarandstaðan sé í málþófi. Sumir fjölmiðlar virðast dansa með, dansa eftir þessum pípum ríkisstjórnarflokkanna með því að leggja aðaláherslu á að telja mínútur og ferðir í ræðustól í stað þess að reyna að gera tilraun til að átta sig á um hvað deilan snýst.

Um hvað snýst deilan? Hún snýst auðvitað í grundvallaratriðum um það hvort Alþingi Íslendinga ætlar að breyta lögum sem Alþingi setti í lok sumars um að ríkisábyrgð vegna skuldbindinga Tryggingarsjóðs innstæðueigenda væri bundin ákveðnum, öflugum og sterkum fyrirvörum. Við minnumst þess í umræðunni að hv. þingmenn, bæði úr stjórn og stjórnarandstöðu, lögðu á sig margar ferðir upp í ræðustól í lok sumars til að bera lof á þessa fyrirvara, lýsa mikilvægi þeirra og lýsa því að fyrirvararnir væru forsenda þess að þeir gætu stutt frumvarpið sem þá lá fyrir. Þær raddir heyrðust ekki síst frá hv. þingmönnum Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs sem komu bæði í ræðustól Alþingis og fjölmiðla og lýstu því yfir að fyrirvararnir væru algjör forsenda þess að þeir gætu stutt það frumvarp sem fyrir lægi og stutt ríkisábyrgð vegna Icesave. Eins og hv. þingmenn þekkja kom svo inn nýtt frumvarp á haustdögum og á það hefur verið bent af mörgum aðilum innan þings og utan, bæði hv. þingmönnum, fræðimönnum og öðrum, að fyrirvararnir sem voru samþykktir í lok sumars og voru öflugir og sterkir — og algjör forsenda þess að hægt væri að samþykkja ríkisábyrgðina — hafa verið þynntir út, sumir felldir út alfarið, aðrir settir í búning sem gerir það að verkum að þeir hafa ekkert hald þegar mest á reynir. Þessar röksemdir hafa ítrekað komið fram en af hálfu ríkisstjórnarflokkanna hefur þessum röksemdum ekki verið svarað og að því leyti er það rétt hjá hv. þingmönnum stjórnarflokkanna að ekkert nýtt hefur komið fram, ekkert nýtt hefur komið fram af þeirra hálfu, ekki neitt, ekki neitt nýtt hefur komið fram af hálfu talsmanna ríkisstjórnarinnar eða ríkisstjórnarflokkanna í þessu máli, (Gripið fram í: Ertu með vídeó …?) ekkert komið fram sem skiptir máli í þessu, ekkert sem hægt er að líta á sem gagnrök eða svör við þeim athugasemdum sem gerðar hafa verið. Ég ætla að rifja örstutt upp bara þannig að hv. þingmenn geti farið að leita í plöggum sínum og fundið út hvort tilteknum atriðum hafi verið svarað.

Fyrst vil ég auðvitað nefna að í ágætri fréttatilkynningu formanna stjórnarandstöðuflokkanna í gær voru dregin saman ein 16 atriði sem nauðsynlegt er að skoða betur. Það eru auðvitað veigamestu atriðin af þeim sem hér eru til umræðu. Ég ætla að nefna nokkur atriði um málflutning sem ekki hefur verið svarað. Ég hef ekki tíma til að fara efnislega í einstaka þætti. Ég ætla bara að nefna þetta þannig að hv. þingmenn geti farið í plögg sín, kynnt sér gögnin og reynt að átta sig á því hvort búið er að svara þessu.

Til að taka þetta í tímaröð nefni ég að 31. október, fyrir meira en mánuði, birtu lögfræðingarnir Stefán Már Stefánsson og Lárus Blöndal ítarlega og vel rökstudda grein í Morgunblaðinu þar sem þeir sýndu fram á að fyrirvararnir frá því í sumar væru komnir í rúst í nýja frumvarpinu og að ekkert hald væri í veigamestu fyrirvörunum. Þessa grein birtu lögfræðingarnir 31. október. Ég hef hvergi séð svör, hvorki opinberlega né innan þings, við ítarlegum og tölusettum athugasemdum þessara tveggja lögfræðinga. Hafi einhverjir aðrir þingmenn séð þessi svör bið ég þá að gefa sig fram.

Þann 2. nóvember kom ítarleg og vel rökstudd samantekt frá Indefence-hópnum sem hafði farið lið fyrir lið yfir efni nýja frumvarpsins og borið það saman við frumvarpið sem var samþykkt í sumar. Hópurinn fór yfir það lið fyrir lið og birti rökstuðning í hverju tilviki fyrir sig. Það var 2. nóvember, fyrir meira en mánuði. Ég hef hvergi séð tilraun, hvorki opinberlega né í sölum Alþingis, til að svara þessum athugasemdum.

Ég nefni það að málið fór til meðferðar í efnahags- og skattanefnd. 16. nóvember sendu ýmsir minni hlutar í nefndinni frá sér álit undir mikilli tímapressu, það er rétt að hafa í huga. Það komu athugasemdir í öllum þessum álitum nema einu, áliti þingmanna Samfylkingarinnar. Ítarleg og góð rök komu fram í áliti fulltrúa Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs, Lilju Mósesdóttur og Ögmundar Jónassonar. Þeim hefur ekki verið svarað opinberlega og ekki verið svarað í þingsölum. Það kom greinargott álit frá hv. þm. Þór Saari. Honum hefur ekki verið svarað efnislega. Það kom greinargott álit frá fulltrúum Sjálfstæðisflokksins og Framsóknarflokksins í nefndinni. Engu atriði sem þar er nefnt hefur verið svarað. Þetta er 16. nóvember, það eru liðnar þrjár vikur. Enginn hefur svarað efnislega þeim athugasemdum sem komu fram í þessum nefndarálitum. Fjárlaganefnd tók við álitunum og birti þau sem fylgiskjöl með áliti meiri hlutans en enginn hefur svarað, og ekki fjárlaganefnd, efnislega þeim athugasemdum sem þessir fulltrúar í efnahags- og skattanefnd skiluðu.

Þann 17. nóvember voru birt álit minni hluta í fjárlaganefnd frá hv. þm. Þór Saari, frá hv. þm. Höskuldi Þórhallssyni og frá þremur hv. þingmönnum Sjálfstæðisflokksins. Þetta eru ítarleg álit, vel rökstudd, vel fram sett — engin svör, engin svör úr röðum ríkisstjórnarinnar á þeim þrem vikum sem liðnar eru frá því að þessi álit komu fram. Engin tilraun er gerð til að svara því efnislega sem þar er sett fram.

Við getum nefnt atriði sem hafa komið fram í fjölmiðlum. Ég nefni grein Sigurðar Líndals frá 19. nóvember. Ég hef ekki séð í fjölmiðlum svör við þeirri grein. Ég hef ekki heyrt í ræðum þingmanna á hinu háa Alþingi svör við þeim athugasemdum sem hann setur fram. Ég hef heyrt að menn telji sig ekki þurfa að hafa áhyggjur af þeim þáttum sem Sigurður Líndal hefur áhyggjur af en ég hef engan rökstuðning heyrt, ekki orð sem hægt er að líta á sem rökstuðning í því máli.

Ég nefni nýlega grein Ragnars H. Halls hæstaréttarlögmanns frá 30. nóvember. Engin svör, að sjálfsögðu ekki, hvorki í fjölmiðlum né í þinginu. 2. desember kom vel rökstudd og greinargóð blaðagrein frá Sigurði Líndal, Lárusi Blöndal og Stefáni Má Stefánssyni. Enginn hefur svarað henni, hvorki opinberlega né innan veggja þingsins.

Ég get nefnt af handahófi fleira sem hefur komið fram í fjölmiðlum, t.d. góða greiningu stofnunar úti í bæ, IFS Greiningar, frá 20. nóvember. Ég hef engin svör heyrt. Ég hef reyndar heyrt athugasemd hafða eftir hæstv. efnahags- og viðskiptaráðherra um að þetta standist ekki, en ég hef líka séð svör IFS Greiningar (Forseti hringir.) sem eru sannfærandi og hæstv. efnahags- og viðskiptaráðherra hefur ekki komið í þennan þingsal (Forseti hringir.) út af þessu frekar en nokkru öðru til að gera grein fyrir afstöðu sinni (Forseti hringir.) í málinu.