138. löggjafarþing — 39. fundur,  5. des. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[11:57]
Horfa

Birgir Ármannsson (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Að sjálfsögðu getur það aldrei verið afsökun fyrir hv. þingmenn eða hæstv. ráðherra þegar þeir taka ákvarðanir eða greiða atkvæði um frumvörp að þeir þekki ekki málið. Það getur verið raunveruleg ástæða, þ.e. málum getur verið svo háttað að einhverjar upplýsingar hafi ekki komið fram eða menn hafi ekki haft tök á að kynna sér efnisatriði málsins, en þegar athugsemdirnar hafa verið gerðar, þegar athugasemdirnar hafa komið fram í þinginu, þegar athugasemdirnar hafa komið fram í skriflegum gögnum sem lögð hafa verið fyrir þingið og þegar athugasemdirnar hafa hvað eftir annað komið fram í fjölmiðlum hafa menn auðvitað ekki afsökun.

Allir eru mannlegir og menn geta auðvitað misskilið hluti og menn geta dregið rangar ályktanir af því sem þeir sjá. Það er mannlegt. Á hinn bóginn er ekki nein afsökun fólgin í því að loka augum og eyrum fyrir því sem hér hefur hljómað í sölum þingsins eða hefur verið á síðum dagblaðanna eða í öðrum fjölmiðlum. Ef hv. þingmenn eða hæstv. ráðherrar ætla í framtíðinni að nota það sem einhverja afsökun að þeir hafi ekki vitað af vafamálunum, af áhættuatriðunum, af ógnunum sem í þessu felast sinna þeir ekki starfi sínu vegna þess að auðvitað hafa athugasemdirnar komið fram hvað eftir annað, innan þings og utan. Allir hafa átt kost á að fara yfir þau rök sem hafa komið fram og hafa haft næg tækifæri til að koma á framfæri gagnrökum sínum. Það er hins vegar á ábyrgð þessara hv. þingmanna og ráðherra sjálfra ef þeir kjósa að loka augum (Forseti hringir.) og eyrum fyrir því sem hér fer fram og ef þeir kjósa að greiða atkvæði með bundið fyrir augun.