138. löggjafarþing — 39. fundur,  5. des. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[12:01]
Horfa

Birgir Ármannsson (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ábyrgð þeirra sem reyna viljandi að afvegaleiða umræðuna er auðvitað þung. Ég ætla ekki að kafa djúpt í sálarlíf hv. þingmanna stjórnarflokkanna. Ég hef ekki neinar forsendur til þess. En ég veit það bara með sjálfan mig að ef ég væri í sporum hv. þingmanna stjórnarflokkanna sem virðast ætla að greiða þessu frumvarpi atkvæði sitt væri ég virkilega órólegur vegna þess að ég geri ráð fyrir því að í hópi þingmanna stjórnarflokkanna séu fjölmargir sem fylgst hafa með gangi þessa máls og heyrt þær athugasemdir og röksemdir sem komið hafa fram. Ég þykist vita að í hópi hv. þingmanna stjórnarflokkanna sé margt samviskusamt fólk sem vill reyna að vinna vinnuna sína af sanngirni en í þessu máli virðist vera búið að kúga það til hlýðni. Þannig blasir það við mér sem þingmanni á hinu háa Alþingi, að búið sé að kúga þetta fólk til að styðja málið með einhverjum hótunum, hótunum um stjórnarslit, hótunum um ísaldir, frostavetur og ég veit ekki hvað og hvað. Það virðist vera búið að kúga þetta fólk til stuðnings við málið og þagga niður í því vegna þess að ég hef á tilfinningunni að það sé mikil pressa á þessa einstaklinga sem innst inni vilja örugglega vinna vinnuna sína af einlægni og samviskusemi. Það er ábyggilega búið að pressa á þá að tjá sig ekki í þessu máli vegna þess að forusta ríkisstjórnarinnar hefur áhyggjur af því að þá gæti eitthvað komið upp sem raskar því ógnarjafnvægi (Forseti hringir.) sem virðist ríkja innan ríkisstjórnarinnar og innan stjórnarflokkanna.