138. löggjafarþing — 39. fundur,  5. des. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[12:05]
Horfa

Birgir Ármannsson (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Þetta er auðvitað ákveðin ráðgáta sem hv. þm. Gunnar Bragi Sveinsson vísar í. Ég velti því fyrir mér hvernig þetta mundi vera við réttarhald í réttarsal. Annar aðilinn mætir með málflytjanda sinn sem fer yfir röksemdir og sjónarmið og reifar álitaefnin, fer ofan í þau og færir rök fyrir máli sínu. Hinn aðilinn hinum megin mætir annaðhvort ekki í réttarhaldið eða kemur og segir: Þú ert bara að reyna að tefja fyrir. Hvernig ætti dómari að meta slíkan málflutning? Ég efast um að sá aðili sem annaðhvort léti það ógert að mæta í réttarsalinn til að standa fyrir máli sínu, mætti ekki eða kæmi þangað og þegði, að hann hefði mikil tækifæri til að hafa áhrif á dómarann. Ég held að það yrði álitinn frekar slappur málflutningur, slöpp hagsmunagæsla eða röksemdafærsla. Þögnin svarar ekki rökstuddum athugasemdum þannig að þeir sem kjósa að láta þessar umræður í þinginu ganga yfir og gera ekki tilraun til að standa fyrir máli sínu, til að rökstyðja afstöðu sína, dæma sig úr leik og skila bara auðu í umræðunum. Ég spyr á móti: Hvernig er með kjósendur þessara ágætu flokka, Samfylkingar og Vinstri grænna, finnst þeim boðlegt að kjörnir fulltrúar þeirra á Alþingi reyni að þegja sig í gegnum þetta mál?