138. löggjafarþing — 39. fundur,  5. des. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[12:08]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Meiri hluti kjósenda kaus þessa svokölluðu Icesave-flokka og það var ágætt þegar hv. þingmaður velti þessu fyrir sér: Hvað ætli kjósendur þeirra hugsi í dag? Ég get ekki ímyndað mér það. Ég alla vega fæ mjög sterk og ákveðin viðbrögð frá kjósendum úr mínu kjördæmi um hvernig haldið er á þessu máli og það er mikið kallað eftir því að við þingmenn sem ræðum þetta mál komum fram með álitaefni sem við fáum þó engin svör við. Því er mjög haldið að okkur að við höldum okkar striki við að draga fram það sem máli skiptir í þessari umræðu og í þessu gríðarstóra máli. Því er það mikill áfangi að nú skuli vera orðið ljóst að þau 16 atriði sem við höfum lagt hvað mesta áherslu á — það eru eflaust fleiri atriði sem við höfum tínt til — verði tekin til rækilegrar endurskoðunar.

Mig langar því í framhaldi af því að spyrja hv. þingmann — þetta er undarleg spurning í ljósi sögunnar: Er einhver von til þess að hv. stjórnarliðar og stjórnarþingmenn komi yfirleitt inn í þessa umræðu með nokkrum hætti? Er það ekki eðlileg krafa bæði okkar sem köllum eftir upplýsingum og væntanlega kjósenda þessara ágætu hv. þingmanna að þeir komi og skýri mál sitt?