138. löggjafarþing — 39. fundur,  5. des. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[12:10]
Horfa

Birgir Ármannsson (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég held að allir sem tekið hafa til máls í þessari umræðu, bæði úr stjórn og stjórnarandstöðu, hafi áréttað mikilvægi þessa máls, stærð þess og umfang. Þetta eru gríðarlegar skuldbindingar sem verið er að leggja á íslensku þjóðina. Það er verið að taka gríðarlega áhættu út frá mörgum þáttum bæði varðandi efnahagslega þætti og efnahagslega framtíð þjóðarinnar. Það er verið að leggja á okkur byrðar, við getum nefnt dæmi: Hv. þingmaður Þór Saari hefur nefnt að hér þurfi 79 þúsund skattgreiðendur bara til að standa undir vaxtagreiðslunum. Við getum snúið því við og sagt að vaxtagreiðslurnar á ári séu sem svarar öllum útgjöldum til Landspítalans – háskólasjúkrahúss, bara svo dæmi sé tekið, ekki höfuðstóllinn bara vextirnir, þannig að þar eru gríðarlegir hagsmunir. Að sjálfsögðu afgreiða menn þau ekki með þögninni þegar stórmál eru til meðferðar á Alþingi. Menn afgreiða þau ekki án þess að koma og færa rök fyrir máli sínu. Menn afgreiða þau ekki án þess að koma hingað og velta upp öðrum möguleikum, að sjálfsögðu ekki. Þegar stórmál eru til umræðu eru þau að sjálfsögðu rædd og þegar þau eru síðan skoðuð í baksýnisspeglinum, hvort sem það er við næstu kosningar, við kosningar einhvern tíma í framtíðinni eða þegar sagnfræðingar fara að velta fyrir sér af hverju við borgum alla þessa peninga til Bretlands og Hollands, munu menn auðvitað spyrja: Á hvaða forsendum voru þessar ákvarðanir teknar? Menn munu hafa nægan aðgang að röksemdum okkar sem stöndum gegn þessu. Það verður enginn skortur á því. En fyrir sagnfræðinga eða stjórnmálafræðinga framtíðarinnar sem skoða þetta, munu þeir reka sig á risastórt gat í röksemdafærslunni. Það verður gríðarlegt gat í heimildunum þar sem kemur að afstöðu stjórnarflokkanna. Ég velti fyrir mér: Hvað ætla þingmenn þessara flokka að segja við kjósendur sína þegar þeir óska eftir endurkjöri?