Vátryggingastarfsemi

Laugardaginn 05. desember 2009, kl. 17:10:02 (0)


138. löggjafarþing — 39. fundur,  5. des. 2009.

vátryggingastarfsemi.

229. mál
[17:10]
Horfa

efnahags- og viðskiptaráðherra (Gylfi Magnússon):

Hæstv. forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um vátryggingastarfsemi. Frumvarpið er á þingskjali 254 og er 229. mál þingsins.

Hefur frumvarp þetta, lítt breytt eða samhljóða, verið lagt fram þrisvar sinnum en ekki hlotið afgreiðslu. Síðast var frumvarpið lagt fram á sumarþinginu 2009 og í ljósi þess hversu stutt er liðið síðan — og hv. þingmönnum því framsöguræða mín í fersku minni — mun ég fyrst og fremst fjalla um þær breytingar sem gerðar hafa verið á frumvarpinu frá framlagningunni þá.

Á sumarþinginu 2009 var farið yfir umsagnir um frumvarpið frá umsagnaraðilum og hafa verið gerðar breytingar á frumvarpinu að teknu tilliti til þeirra, eftir því sem tilefni þótti til. Nokkrar þeirra varða einföldun á framsetningu, einkum ákvæði VI. kafla, um virkan eignarhlut, en allnokkrar eru efnisbreytingar frá eldri gerðum frumvarpsins.

Þá hefur verið farið ítarlega yfir ákvæði sem eiga sér samsvörun í ákvæðum laga um fjármálafyrirtæki og lagðar til breytingar til samræmis við ákvæði sem verður að finna í frumvarpi til laga um fjármálafyrirtæki. Varða ákvæði þessi einkum rekstraröryggisleg atriði.

Mun ég nú, hæstv. forseti, gera grein fyrir helstu breytingum frá síðustu framlagningu.

Í 53. gr. frumvarpsins er lagt til að vátryggingafélögum sé óheimilt að lána fé og taka eigin hlutabréf að veði. Tilgangur ákvæðisins er tvíþættur. Annars vegar að tryggja að upplýsingar um fjárhagslegan styrk séu í samræmi við raunveruleikann en útgáfa nýs hlutafjár, sem keypt er án þess að annað endurgjald komi fyrir en skuldaviðurkenning kaupanda sem tryggð er með veði í sjálfum bréfunum, eykur ekki fjárhagslegan styrk með sama hætti og útgáfa sem fullt endurgjald í beinhörðum peningum gerir. Hins vegar er ákvæðinu ætlað að vernda hagsmuni minni hluta í vátryggingafélagi sem á mikið undir því að félagið sé ekki rekið sem einkafjárfestingasjóður tiltölulega fárra stórra eigenda.

Ákvæði um stjórn hafa verið gaumgæfð og eru nokkrar breytingar lagðar til frá síðustu framlagningu. Er m.a. lagt til að stjórn vátryggingafélags sé skylt að setja formlegar reglur, sem staðfestar skulu af Fjármálaeftirlitinu, um innra eftirlit, innri endurskoðun, fjárfestingarstarfsemi, lánveitingar og viðskipti við tengda aðila. Eins er nú lagt til að ekki sé heimilt að vera með svokallaðan starfandi stjórnarformann í vátryggingafélagi.

Þá er í frumvarpinu lagt til að skipt sé um endurskoðunarfyrirtæki á fimm ára fresti.

Hæstv. forseti. Upphaflegur tilgangur frumvarpsins var að innleiða ákvæði endurtryggingatilskipunar ESB. Við nánari skoðun þótti rétt að fara gaumgæfilega yfir gildandi lög með tilliti til breytinga sem gerðar höfðu verið á þeim í gegnum tíðina og nýrra laga á vátryggingasviði. Jafnframt þessu hafði Eftirlitsstofnun EFTA bent á nokkur ákvæði eldri tilskipana sem stofnunin taldi að ekki hefðu verið innleidd með fullnægjandi hætti. Þá var tilefnið einnig nýtt til þess að aðlaga ákvæði um virkan eignarhlut ákvæðum tilskipunar ESB nr. 44 frá 2007.

Í athugasemdum um einstakar greinar frumvarpsins er skilmerkilega fjallað um það hvort viðkomandi grein sé til innleiðingar á endurtryggingatilskipuninni, öðrum tilskipunum eða hvort um sé að ræða séríslensk ákvæði.

Hæstv. forseti. Eftirlitsstofnun EFTA, ESA, hefur stefnt íslenskum stjórnvöldum fyrir EFTA-dómstólinn fyrir að hafa ekki enn innleitt endurtryggingatilskipun ESB. Það þarf ekki að orðlengja það hversu mikill álitshnekkir það er fyrir Ísland að lenda þar á sakamannabekk. Vil ég því hvetja til þess að frumvarp þetta fái eins hraða yfirferð í þinginu og viðskiptanefnd og kostur er.

Að lokinni þessari umræðu er lagt til að frumvarpinu verði vísað til 2. umr. og hv. viðskiptanefndar.