138. löggjafarþing — 39. fundur,  5. des. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[18:03]
Horfa

Eygló Harðardóttir (F) (andsvar):

Frú forseti. Ég vil byrja á að þakka hæstv. ráðherra Gylfa Magnússyni alla vega fyrir að viðurkenna það hversu alvarleg staðan er. Það er líka þakkarvert að þetta er, held ég, í fyrsta skipti sem ég hef heyrt ráðherra í ríkisstjórn viðurkenna það að við séum ekki að tala um einhver tvö til þrjú ár, við erum að tala um lengri tíma, það má þakka það.

Ég vildi hins vegar benda hæstv. ráðherra á lokaorðin í þeirri grein sem ég vitnaði í áðan sem er kölluð „The Aftermath of Financial Crises“ og er eftir Carmen Reinhart og Kenneth S. Rogoff, þar sem þau útlista þessar rannsóknir og m.a. skoða stöðuna á Íslandi líka. Þau tóku okkur inn í þarna strax og segja síðan í lokaorðum sínum að greining þeirra á því sem gerist eftir kreppu hvað varðar atvinnuleysi, varðandi framleiðni, varðandi skuldir ríkissjóðs, sýni mjög alvarlegar og erfiðar niðurstöður fyrir það hvernig kreppan muni þróast á Íslandi og í öðrum löndum sem lenda í svona erfiðleikum. Svo benda þau líka á að sá sögulegi samanburður sem þau eru með byggist á atburðum eða kreppum, með þeirri undantekningu sem er kreppan mikla í Bandaríkjunum, sem gerðust bara í viðkomandi einstöku landi eða á viðkomandi svæði, ekki svona heimskreppu eins og við höfum verið að upplifa núna þar sem í rauninni allur hinn vestræni heimur og raunar heimurinn allur varð fyrir áhrifum af. Og vegna þess að þetta tekur til alls heimsins, að þetta er alþjóðleg kreppa, verður miklu, miklu erfiðara, samkvæmt því sem þau segja hér, fyrir mörg lönd að vaxa með auknum hagvexti, að komast út úr þessu með því að flytja meira út eða með því að (Forseti hringir.) auðvelda sér þetta með erlendri lántöku. Þau benda á að (Forseti hringir.) samkvæmt þeirra mati sé mjög líklegt (Forseti hringir.) að fullvalda þjóðum sem fara í greiðsluþrot muni fjölga.