138. löggjafarþing — 39. fundur,  5. des. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[18:09]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég upplifði þessi sálfræðiáhrif eða heilkenni einu sinni og menn höfðu mjög góða mynd af skuldunum. Þetta voru verkfræðingar, raunvísindamenn sem vissu nákvæmlega að skuldirnar voru svona miklar en þeir áttu von á því að einhver 10 milljón króna reikningur yrði greiddur og þó að allir vissu að það væri búið að hafna því, þó að allir vissu að hann yrði aldrei greiddur, var haldið í þá von að þessi reikningur væri bara að koma, sko. Ég held að fulltrúar Alþjóðagjaldeyrissjóðsins séu í þessari stöðu, þessu fólki er sagt: Pínið þið Íslendinga til að taka Icesave, þið verðið að gera það. En þeir vita nákvæmlega að það gengur ekki upp.

Þess vegna kemur þessi furðulega staða eins og að 240% sé óbærilegt og nokkrum mánuðum seinna eru 310% allt í einu orðið bærilegt. Þeir verða að komast að þeirri niðurstöðu þó að þeir séu raunvísindalega þenkjandi og viti betur. Þetta er náttúrlega alveg skelfileg staða sem menn lenda í af því að þeim er sagt þetta, þeir hafa valdið fyrir ofan sig og verða að komast að ákveðinni niðurstöðu sem þeir vita sjálfir að gengur ekki upp. Svona held ég að þetta sé bæði hjá mörgum þingmönnum stjórnarliða og mörgum ráðherrum ríkisstjórnarinnar.

Það er dálítið merkilegt þegar maður fer í gegnum það, ég er búinn að gera lista yfir alla sem hafa talað í þessu máli, það virðist vera eitthvert einkenni á ráðherrum ríkisstjórnarinnar að tala ekki í málinu. Það er bara eiginlega enginn, það eru Árni Páll Árnason, Gylfi Magnússon, hann hafði bara talað í fjórar mínútur og aðeins í andsvörum þegar ég tók þessa stöðu. Nú hefur hann reyndar verið galdraður einu sinni upp í andsvar, þ.e. fjórða andsvarið. Jóhanna Sigurðardóttir, jú, hún hefur reyndar talað hérna nokkrum sinnum. Jón Bjarnason aldrei, bara aldrei. Katrín Jakobsdóttir aldrei í þessari umræðu. (Gripið fram í.) Þetta er alveg ótrúlegt. Það virðist vera að þetta fólk sjái vandann en megi ekki viðurkenna hann, megi ekki sjá hann og (Forseti hringir.) þá afneitar það honum. — Það var ekki komið rautt ljós hjá mér.

(Forseti (ÁRJ): Það var komið í borði forseta samkvæmt klukkunni.)