138. löggjafarþing — 39. fundur,  5. des. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[18:27]
Horfa

Illugi Gunnarsson (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég vil í upphafi þessa andsvars taka eitt fram. Í ræðu minni áðan sagði ég að við værum langt komin með það að ræða þetta mál út í hörgul en það virðist vera þannig að það eru sífellt að koma fram nýir fletir á því sem gera það að verkum að umræðan hefur tekið tíma í þingsalnum. Ég vil því nota tækifærið og beina því til forseta að í framtíðinni þegar við fáum jafnstór mál inn í þingið og þetta, verði sett frekari pressa á stjórnarliða um það að halda málum aðeins lengur inni í nefndum og ræða þau betur þar, þannig að þau séu betur búin til umræðu í þingsalnum og við lendum ekki í því sem hér hefur verið og því miður er ekki enn búið að klára, sem er opin umræða um mál sem að mörgu leyti eru mjög tæknileg og kalla mjög á sérfræðiþekkingu og aðkomu sérfræðinga.

Hvað varðar fyrirspurn og spurningu hv. þingmanns er það alveg rétt að þetta er nokkuð bjartsýn spá hvað varðar vöruskiptajöfnuðinn. Hún gengur m.a. út á það að gengið haldi áfram til mjög langs tíma að vera svona hagstætt fyrir útflutning og óhagstætt fyrir innflutning. Það sem menn verða þá að velta fyrir sér og horfa á í sögulegu samhengi er hvað gerist hér með raungengið, þ.e. hvað mun gerast með launaþróun og verðlagsþróun í landinu vegna þess að það sem skiptir máli þegar upp er staðið er raungengið en ekki bara nafngengið. Ég er ekki sannfærður um að raungengið verði jafnhagstætt útflutningnum til mjög langs tíma, það muni sjá á því í launaþróun og verðþróun innan lands, það muni taka það niður. Við þekkjum það mjög vel, Íslendingar, úr sögunni.

Hvað varðar stöðu fyrirtækja og ríkissjóðs varðandi erlend lán gefur það augaleið að eftir því sem þetta verður erfiðara því meiri eftirspurn verður eftir gjaldeyri. Ef skuldirnar eru háar og standa þarf í skilum með stórar greiðslur erlendis í gjaldeyri, verður (Forseti hringir.) hann náttúrlega dýrari og þar með ýtist það kannski jafnvel enn neðar.